135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[16:30]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar gera það sama og aðrir hafa gert og fagna þeirri umræðu sem hér á sér stað um skýrslu utanríkisráðherra um Ísland og innri markað Evrópu. Ég vil hrósa hæstv. utanríkisráðherra sérstaklega fyrir að standa fyrir henni. Ég tel að það sé mjög gott fyrir okkur þingmenn og þingið að ræða Evrópumálin sérstaklega. Þó að umræða um Evrópumál hafi lengi átt sér stað á Íslandi hefur umræða á Alþingi allt of sjaldan verið eyrnamerkt þeim málaflokki. Það er því mjög gott að við þingmenn fáum tækifæri til að skiptast á skoðunum um þessi mál. Evrópumálin eru svo stór og af svo mörgu að taka að maður gæti staðið hér og rætt þau í allan dag en ekki gefst tími til þess þannig að maður þarf að stikla á stóru hvað varðar málaflokkinn.

Ég er þeirrar skoðunar að EES-samningurinn, sem ég hygg að hafi verið undirritaður árið 1992 og leiddur í lög á árinu 1993, hafi þjónað hagsmunum íslensku þjóðarinnar ákaflega vel. Hann hefur ásamt efnahagsstjórn síðustu ára og hagfelldu skattumhverfi reynst bæði íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum vel þó svo ég sé ekki reiðubúinn til að þakka þeim samningi einum allt það góða sem gerst hefur á undanförnum áratugum. Á heildina litið er ég þó þeirrar skoðunar að það hafi verið heillaskref á sínum tíma að þessi samningur var gerður og að við Íslendingar skyldum gerast aðilar að innri markaði ESB.

Áður en lengra er haldið vil ég nota tækifærið til að taka undir þau sjónarmið sem fram komu í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar fyrr í dag um mikilvægi þess að þingið komi í meira mæli og fyrr að stefnumörkun og ákvörðunum vegna þeirra gerða sem áhrif hafa á Íslandi og eru síðan eftir atvikum innleiddar í íslenskan rétt. Ég fagna því frumkvæði sem hv. þingmaður hefur sýnt, bæði innan þings og utan, í blaðagreinum um þetta mál og almennum málflutningi, varðandi það að þingið komi fyrr og með ákveðnari hætti að ákvörðunum og stefnumörkun í þeim málum sem snerta okkur. Ég skora á hæstv. forsætisnefnd þingsins að bregðast mjög skjótt við þeim athugasemdum sem settar hafa verið fram og tryggja að þær reglur sem um þetta voru settar árið 1994 verði teknar til framkvæmda. Það er mjög mikilvægt að Íslendingar hafi aðgang að ákvörðunartöku um þessi mál um efni og innihald þeirra gerða sem varða samfélag okkar.

Um reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins hafa verið höfð mörg orð í umræðu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu á síðustu árum og ég hef tekið virkan þátt í þeirri umræðu. Ég vil aðeins víkja að þeim málflutningi vegna þess að þó að minna fari fyrir honum í dag en áður er nauðsynlegt að rifja upp ákveðnar staðreyndir um innleiðingu EES-gerða í íslenskan rétt.

Því var haldið fram svo árum skipti af fylgismönnum aðildar Íslands að ESB að borðleggjandi væri fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið vegna þess að við innleiddum 80%, og jafnvel meira, af gerðum ESB inn í íslenskan rétt. Af því tilefni lagði ég árið 2005 fram fyrirspurn til þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, á Alþingi um innleiðingu EES-gerða í íslenskan rétt og spurði hversu margar gerðir stofnanir Evrópusambandsins hefðu samþykkt og gefið út á hverju ári frá árinu 1994 til 2004, þ.e. frá þeim tíma sem við gerðumst aðilar að EES-samstarfinu. Í því svari kom fram að á þessu 10 eða 11 ára tímabili samþykkti Evrópusambandið 38.936 gerðir sem eru býsna margar tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir. Ég spurði jafnframt að því hversu margar þessara gerða hefðu verið teknar upp í EES-samninginn, samanber lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, og innleiddar hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem EFTA-skrifstofan tók saman kom fram að 2.527 tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir hefðu verið teknar inn í EES-samninginn á umræddu tímabili eða 6,5% af heildarfjölda EBS-gerða á þessu tímabili, 6,5% af þeim gerðum sem Evrópusambandið hafði samþykkt á þessu árabili.

Þegar ég spurði að því hversu margar þessara gerða hefðu krafist lagabreytingar við innleiðingu hér á landi kom fram að í 101 tilviki hefði íslenska ríkisstjórnin eða íslensk stjórnvöld gert svokallaðan stjórnskipulegan fyrirvara við þær á grundvelli 103. gr. EES-samningsins. Mér finnst rétt að þetta komi fram hér vegna þess að á okkur hefur dunið sá áróður að í gegnum þingið renni meira og minna gagnrýnislaust allt löggjafarstarf Evrópusambandsins. Svo er ekki en ég tek hins vegar undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni að mikilvægt sé að við komum að og höfum áhrif á þó þær gerðir sem innleiddar eru í íslenskan rétt. Eins og komið hefur fram í umræðunni hafa þær margar víðtæk áhrif á samfélag okkar og þá starfsemi sem hér fer fram.

Þó að ég sé sáttur við EES-samninginn og framkvæmd hans, eins og ég tók fram í upphafi máls míns, hef ég talið og tel enn að aðild Íslands að Evrópusambandinu komi ekki til greina. Ég hef verið skýr hvað mína afstöðu varðar hvað aðild snertir þó svo að einstakir þingmenn í þessum umræðum séu mér andsnúnir. Ég er andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu af ýmsum ástæðum. Við erum sjálfstæð og fullvalda þjóð og eigum að vera það áfram. Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé óheppilegt að ganga jafnlangt og Evrópusambandið hefur gert í samræmingu á öllum sköpuðum hlutum varðandi einstaklinga og atvinnulíf í þeim löndum sem tilheyra ESB, t.d. hvað varðar skattasamkeppni á milli landa. Ég tel að við eigum að nota þau sóknarfæri sem við höfum til að taka þátt í skattasamkeppni, ekki láta banna okkur það, til að laða hingað að fyrirtæki og fjármagn. Ég hef einnig nefnt það í þessari umræðu að ég tel að hagsmunir sjávarútvegsins kalli á að við stöndum utan ESB.

Að lokum vil ég nefna eitt atriði sem mér finnst vera ljóður á ráði Evrópusambandsins og það er skortur á lýðræði. Það virðist einkenna Evrópusambandið að þar gefast menn aldrei upp. Þeir eru svona eins og þýska fótboltalandsliðið, halda endalaust áfram. Það gildir einu þó að Evrópusambandið tapi kosningum, það eru bara haldnar nýjar kosningar og tekur steininn úr þessa dagana. Þeir sem hafa fylgst með Evrópuumræðunni að undanförnu hafa tekið eftir því að drög að stjórnarskrá sambandsins voru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í Hollandi og Frakklandi og hurfu í kjölfarið af yfirborði jarðar. Nú hafa þau dúkkað upp á nýjan leik og nú í formi samninga sem ekki munu verða lagðir fyrir íbúa sambandsins en verða vafalítið að lögum án þeirra vitundar. Í þessum samningum verða endanlega staðfestar ýmsar þær reglur sem Evrópusambandið ætlaði sér að ná í gegnum hina nýju stjórnarskrá, þar á meðal að stjórn auðlinda og sjávarauðlinda verði á valdi Evrópusambandsins en ekki aðildarríkja þess. Meðan svo er getum við Íslendingar ekki gengið í Evrópusambandið og það er ábyrgðarlaust að halda því fram að það sé í samræmi við hagsmuni okkar.

Ég vildi koma þessum sjónarmiðum mínum að í stuttu máli. Maður gæti haldið miklu lengri ræðu um þessi mál en hér gefst tími til en ég vil nota tækifærið að lokum og þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þá skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt fram um þessi mál.