135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[16:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er búið að þakka mikið í dag. Samfylkingin þakkar Samfylkingunni og sjálfstæðismenn þakka sjálfstæðismönnum. Allir eru að þakka öllum og ég þakka að sjálfsögðu líka fyrir þessa umræðu um utanríkismál. Hér hefur réttilega verið bent á að skilin á milli innanríkismála og utanríkismála gerast harla óglögg á stundum og mikilvægt er að við færum umræðu um tengsl okkar við útlönd inn í þingsalina. Tengsl okkar við Evrópusambandið og aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði er mjög snar þáttur í lífi íslensku þjóðarinnar og mikilvægt að við gaumgæfum þau mál mjög vel. Ég tel reyndar að við þurfum einnig að huga að öðrum þáttum. Við þurfum að færa inn í þingið umræðu um Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðaviðskiptastofnunina svo dæmi séu nefnd en á vegum allra þessara stofnana eru færð sjónarmið íslenskra stjórnvalda án þess að um þau fari fram umræða á þingi eða í þjóðfélaginu almennt. Iðulega er þetta gert í samráði við hinar Norðurlandaþjóðirnar en þar er þessu einnig farið á þennan veg, að því er ég best veit, afar lítil lýðræðisleg umræða þar að baki.

Ég tel þessa umræðu því góðra gjalda verða, mjög mikilvæga, velti því fyrir mér hvort heppilegt væri að þrengja hana enn meira niður. Við þyrftum að taka umræðu um raforkumálin, um umhverfismálin, um þjónustutilskipunina svo dæmi séu nefnd en ekki halda okkur stöðugt á yfirborðinu og það er mín fyrsta gagnrýni á þessa skýrslu og þessa umræðu hve almenns eðlis hún er. Hvorki umræðan né skýrslan er mjög á dýptina. Þetta er yfirgrip yfir það sem hefur gerst, þróunin á undanförnum árum en fyrir stefnumótun íslenskra stjórnvalda, sjálfu innihaldinu, fer afar lítið og ég mun víkja að þessu.

Varðandi hið almenna sló hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tóninn strax í upphafi. Hún fordæmdi alla þá sem höfðu verið á móti inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið og sagði að það væri EES-samningnum að þakka að Íslendingar hefðu notið þeirrar kjaraaukningar og þeirrar velmegunar sem við hefðum notið á undanförnum árum og við ættum einnig að þakka hinu Evrópska efnahagssvæði fyrir félagsleg réttindi. Ég leyfi mér að mótmæla þessari söguskoðun, bæði hvað efnahaginn varðar og einnig hin félagslegu réttindi. Hvað efnahaginn varðar þá höfum við notið góðs af efnahagsuppsveiflu í heiminum öllum. Halda menn að það skipti engu máli þegar hver einasti launamaður í landinu lætur á milli 14 og 20 kr. af hverjum 100 kr. sem hann vinnur sér inn í lífeyrissjóði sem síðan fjárfesta í atvinnulífi, í útrásarfyrirtækjum og í uppbyggingu innan lands og utan? Halda menn að þetta skipti engu máli upp á velsæld í atvinnulífinu? Svona er ekki hægt að þurrka út. Ég minni einnig á þau stærstu skref sem stigin hafa verið í félagslegum efnum launafólki til hagsbóta. Hver skyldu þau hafa verið? Eru það ekki fæðingarorlofslögin? Eru það ekki lífeyrislögin? Komu þau frá Evrópu? Var það samkvæmt skipun frá Brussel? Nei. Þetta var byggt á frumkvæði okkar sjálfra. Það voru Íslendingar sjálfir sem stigu þessi skref og ekki undir einhverjum svipuhöggum. Því skulum við aldrei gleyma. Hvaða þjóð í Evrópu hefur það fest í sín lög aðkjarasamningar skuli gilda á atvinnumarkaði að lágmarki? Hvaða þjóð skyldi það vera? Það eru Íslendingar. Hverjir sækja að okkur vegna þeirrar löggjafar? Það er Evrópusambandið. Þar er ESA komið á kreik með aðfinnslur. Nú þurfum við að verjast þessari ásókn eina ferðina enn, íslensk verkalýðshreyfing og félagsleg öfl í landinu.

Hér kem ég að því sem ég helst hefði viljað ræða í lengri tíma en tækifæri gefst til við þessa umræðu. Það er þjónustutilskipunin. Hún á rót að rekja til ákvörðunar sem tekin var í Lissabon árið 2000. Þá hófst ferli sem kennt er við þá borg, Lissabon-ferlið. Menn ákváðu að setja sér það mark að á árinu 2010 hefði það náðst að Evrópusambandið, hið Evrópska efnahagssvæði, væri orðið kröftugasta markaðssvæði í heimi. Út á það hefur slagurinn síðan gengið að færa eins marga þætti í samfélaginu undir markaðssáttmálann inn á sameiginlegt markaðssvæði. Við fengum hvítar bækur, við fengum grænar bækur og við fengum verkstjórann Bolkestein, nafnið er óþægilega líkt Frankenstein, enda var haft á orði að starf hans hefði gengið út á að finna leiðir fyrir kapítalið að sjúga vessana út úr samfélaginu og veikja velferðarþjónustuna og þetta er í alvöru þannig.

Á undanförnum árum hefur verkalýðsheyfingin í Evrópu staðið í hörðum slag við fjármagnsöflin sem hafa viljað taka heilbrigðisþjónustu og velferðarþjónustu og færa þau svið undir markaðssáttmálann. Nýlega afhenti hálf milljón launafólks undirskriftir til að mótmæla þessu og undir þessi sjónarmið tóku borgarstjórar í helstu stórborgum Evrópu, í Brussel, París, London, Lúxemborg, Lissabon, Sofíu, Amsterdam, Tallinn, Vín og Nikosíu. Menn eru að slást og þess vegna tókst þeim ekki nú fyrir jólin að koma nýrri tilskipun um heilbrigðismál í gegn. En viti menn, í nýjasta textanum var Bolkestein aftur upp risinn vegna þess að nú var það komið inn í textann að einkareknum sjúkrahúsum sem væru fjármögnuð af skattborgaranum mætti ekki setja neinar skorður. Áður hafði verkalýðshreyfingin fengið því framgengt og félagsleg öfl að slíkar stofnanir mættu ekki taka arð út úr heilbrigðisþjónustunni, út úr sínum stofnunum. Þetta var komið aftur upp. Hver er afstaða íslenskra stjórnvalda til þessa? Hvaða umræða hefur farið fram um innihald þjónustutilskipunarinnar í ríkisstjórninni?

Kemur til álita að gera það sem Norðmenn íhuga, eða ýmis öfl innan norsku ríkisstjórnarinnar, bæði Miðflokkurinn og VS, að beita neitunarvaldi ef þjónustutilskipunin nær fram að ganga í þessari mynd? Gerd Liv Valla, sem þá var forseti norska alþýðusambandsins, lýsti því yfir í frægri ræðu 1. maí að hún mundi beita sér fyrir því að Norðmenn beittu neitunarvaldi næði þessi tilskipun fram að ganga og nú fyrir jólin fóru fram umræður í norskum fjölmiðlum um þetta efni. Norski utanríkisráðherrann, Jonas Gahr Støre, hefur flutt ræðu í norska Stórþinginu þar sem hann hefur í reynd tekið undir þessi sjónarmið þótt Verkamannaflokkurinn hafi ekki gert það sem slíkur. Að vísu minnast margir þess að Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra og formaður Verkamannaflokksins norska, hefði sagt þegar Norðmenn gengu í Evrópska efnahagssvæðið, þegar samningurinn var staðfestur í Noregi árið 1992, að neitunarklásúlan væri ekki sett til sýnis, hún væri í alvöru. Og nú spyr ég, vegna þess að fjallað er um þessa þjónustutilskipun og um þessar deilur, ekki á dýptina en vikið að þeim: Hver er afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar til nákvæmlega þessa? Hefur þetta verið rætt og hver er afstaða Samfylkingarinnar til þjónustutilskipunarinnar og þá sérstaklega til þeirra deilna sem risið hafa síðustu vikurnar í nóvember og desember og nú í janúar um það sem lýtur að heilbrigðismálum? Og það er tilefni til að spyrja eftir að Samfylkingin hleypti Sjálfstæðisflokknum, áköfum í að einkavæða heilbrigðiskerfið, inn í ráðuneyti heilbrigðismála.