135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:01]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég vil líkt og aðrir sem hér hafa komið þakka fyrir að þessi umræða á sér stað. Ég tel hana mjög þarfa, þetta eru mikil grundvallarmál sem við ræðum hér og ég held að vitræn umræða um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu sé sé í rauninni mjög mikilvæg.

Hæstv. utanríkisráðherra vék að því í upphafi ræðu sinnar — sem ég vil þakka fyrir og skýrslu hennar, margt er mjög greinargott sem þar kom fram — en ég átti svolítið bágt með að sjá hvar samhengið kæmi við það að enn væri Bjartur í Sumarhúsum á kreiki í íslenskri umræðu og tilvísanir hennar í það. Mér þótti það ekki mjög málefnaleg vísan að þeim sem væru kannski á annarri skoðun en ráðherra eða flokkur hennar væri líkt við persónu eins og Bjart í Sumarhúsum, einkanlega vegna þess að Bjartur í Sumarhúsum er kannski sú bókmenntapersóna íslensk sem Íslendingum hefur gengið verst að átta sig á og fleirum farið eins og mér að finnast hann bæði skemmtilegur og óþolandi. Ég kalla eiginlega eftir betri skýringu á því hvað átt var við en helst dettur mér í hug að þarna hafi kannski verið horft til nafnlíkingarinnar vegna þess að sá maður sem hefur kannski fært hvað gleggst rök fyrir því að undanförnu að sú stefna að fara inn í Evrópusambandið væru ákveðnar villigötur, og gæti þá verið Bjartur í Sumarhúsum samtímans, er Björgólfur Thor Björgólfsson sem hefur einmitt lýst þeim skoðunum sínum að hann telji að við munum loka okkur um of með því að fara inn í það tollabandalag sem Evrópuumræðan er. Með þessum hætti hefur Evrópuumræðan raunar allt of oft verið, hún hefur einkennst af einhvers konar útúrsnúningum. Sjálfur hef ég skrifað töluvert um þessi mál og sakna raunar andsvara frá þeim sem ég veit að eru á annarri skoðun en síðan er því slett fram að ég hafi líkt Evrópusambandinu við nasismann. Það gerði hér í ræðustól áðan hv. þm. Árni Páll Árnason. Það er í rauninni mjög merkilegt þegar synt er svo grunnt og ekki reynt að kafa ofan í umræðuna af meiri þrótti. Það sem ég hef sagt um þessi mál er það að Evrópusambandið hefur ákveðnar líkingar við önnur kerfi sem hafa sótt sig í þá átt að vera alræðiskerfi. Innan Evrópusambandsins er sú tilhneiging mjög ríkjandi að setja reglur um alla hluti og að vissu leyti hefur alræðishyggjan þar náð lengra og meira inn í lagasetningarferlið en við höfum séð áður þó að ekki skuli dregið úr því að mannlegar hörmungar sem því hafa fylgt hafa ekki orðið sambærilegar við það sem orðið hefur í öðrum alræðiskerfum.

Hér hefur verið vitnað í það að hollt sé fyrir þingmenn að lesa skýrslur og ég tek undir það. Það er gott að menn séu t.d. vel lesnir í þeirri skýrslu sem Evrópunefndin gat út á síðasta ári því að hún er mjög greinargóð ásamt þeirri skýrslu sem hér er kynnt í dag. Ég tek undir með þeim orðum nafna míns sem hér talaði fyrr að saman geta þessar tvær skýrslur virkað eins og mjög góð handbók fyrir okkur þingmenn en það er líka mjög gott og mikilvægt fyrir þingmenn til að skilja stjórnmál að lesa bókmenntir. Og kannski eru bestu bókmenntirnar til að skilja Evrópusambandið að lesa bók Franz Kafka, Réttarhöldin, en þegar þeim lestri er lokið er mjög gott að renna yfir bókina Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson sem lýsir því einmitt hvers vegna menn hrífast af einhverju sem er miklu stærra og miklu óræðara en nokkuð það sem menn geta skilið. En það eru einkum slíkar hugsanir sem hafa orðið til þess að menn hafa gengist inn á þá hugsun að eina leið okkar til áframhaldandi framþróunar og til að hjakka ekki í afturhaldsfari, eins og sagt hefur verið hér í dag að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon geri og vafalaust að breyttu breytanda ég líka, þurfi menn að fara þarna inn. Þetta er eitt af því sem einkennir þessa umræðu.

Annað sem er mjög einkennandi fyrir hana er það sem í rauninni hefur alltaf einkennt alla þá sem gengist hafa mjög heitum hugsjónum á hönd og það er ákveðin nauðhyggja. Það er ákveðin hugsun um það að þetta sé ekki spurning um hvort heldur hvenær. ,,Sovét Ísland, óskalandið, hvenær kemur þú?“ orti skáldið mikla í Hveragerði, Jóhannes úr Kötlum, og vissi alveg að það yrði einhvern tíma Ráðstjórnar-Ísland. Hann efaðist ekkert um það, það var bara spurning um hvenær. Eins hafa fylgismenn aðildar að Evrópusambandinu oft leyft sér að tala í pólitískri umræðu og er í rauninni dæmalaust í vitrænni og rökréttri umræðu að tala um pólitíska atburði, sem eru innan þess sem fólk ákveður, sem eitthvað sem lýtur nauðhyggju, eitthvað sem muni bara koma, muni bara gerast. Við munum taka upp evruna, við munum ganga í Evrópusambandið.

Umræðan hefur gengið mjög út á þetta og úr því að stundum er talað að umræðan þurfi að þroskast þá þykir mér þetta alla vega ekki mjög þroskað. Ég skil reyndar aldrei hugtakið „þroskað“ þegar talað er um umræðu. Það er eitt af því sem er líka sérkennilegt við Evrópuumræðuna. Við tölum aldrei um það t.d. að fjárlagaumræðan í þinginu þroskist yfir í það að svo verði til fjárlög. Það hef ég ekki heyrt. Umræða þarf bara að vera rökrétt og það er það sem við þurfum að kalla eftir í Evrópuumræðunni fyrst og síðast að hún fari að verða rökrænni en hún hefur verið. Til þess að svo megi vera og til þess að umræðan geti skilað okkur einhverju þurfum við líka að hafa allar leiðir opnar, þá getum við ekki útilokað hlutina fyrir fram. Það olli mér nokkrum vonbrigðum að heyra það í dag í ræðu hæstv. viðskiptaráðherra að hann taldi að það væri alveg sýnt að í gjaldeyrismálum væru bara til tvær leiðir, það væri óbreytt leið með krónunni eða innganga í Myntbandalagið. Síðan kynnti hæstv. ráðherra nefnd sem hann hefur komið á fót um evruna og ef ég skildi hann rétt er þetta sérstök nefnd um evruna sem gjaldmiðil. Ef ég hef skilið það rétt þykir mér það nokkuð sérstakt að hér skuli ekki frekar skipuð nefnd um stöðu krónunnar og þar með að allar leiðir séu opnar í því hver niðurstaðan verði. En hér, eins og svo oft, er nauðhyggja Evrópusinnanna ráðandi, þ.e. að það sé bara ein leið út úr … (Gripið fram í: Sambandssinnar.) Sambandssinna má kalla þá, það má nota mörg orð um þetta, orð eru alltaf viðkvæm í þessu. Sjálfur er ég mikill talsmaður samstarfs við Evrópu og mikill aðdáandi hinnar gömlu góðu Evrópu sem er um margt okkar menningarleg móðir. (Gripið fram í: Og sambandsmaður líka.) Svo kem ég úr flokki sem var kenndur við Sambandið en það tilheyrir kannski ákveðinni fortíð, en samt hef ég haldið því fram einmitt að rétta orðið fyrir Evrópuaðildarsinna væru sambandssinnar frekar en Evrópusinnar.

Þá langar mig í lokin, ég gæti talað miklu lengur um þetta og er farinn að sjá það núna hve þingsköpin skammta naumt, en mig langar — (Gripið fram í: … er það ekki?) ég get þá komið aftur, ég veit það — rétt á þeirri mínútu sem ég hef í lokin að koma aðeins að stöðu Framsóknarflokksins í málinu, sem hefur nokkuð verið rædd í dag, og að sá flokkur hafi ekki talað alveg einni röddu. Það er alveg rétt að þar hafa verið skiptar skoðanir um málið og það er svo í fleiri flokkum. Eitt er samt alveg ljóst, það er ríkjandi og ráðandi skoðun innan Framsóknarflokksins, sem bæði núverandi og fráfarandi formaður hafa kynnt, þeir Jón Sigurðsson og Guðni Ágústsson, að þjóðhyggjan er grunnstef í stefnu flokksins. Stefna í Evrópumálum hlýtur alltaf að taka mið af því hvað er þjóðinni fyrir bestu og hvað samræmist þeirri þjóðernisrómantík sem er lykilstef í stefnu Framsóknarflokksins. Þar af leiðandi hef ég talið að með öllu því fullveldisafsali sem felst í aðild að Evrópusambandinu eins og það er núna komi það ekki til greina en það geta alveg orðið þær breytingar á Evrópusambandinu á frekar skömmum tíma að þar verði allt önnur staða uppi og að þá sjáum við hag okkar þar borgið.