135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:15]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að það var erfitt að taka á greinum hv. þingmanns var eins og ég sagði að þær voru skrifaðar með mjög sérstökum hætti þar sem hann líkti Evrópusambandinu við nasistaríki eða alræðisríki Stalíns. Það er mjög erfitt að ræða við menn sem ákveða að tala með þeim hætti um frjálst samfélag sjálfstæðra þjóða sem hefur veitt almenningi áður óþekkt lýðréttindi og mannréttindi. En vegna þess að ég tel að það sé mikilvægt að halda uppi opinni og fordómalausri umræðu um þessi mál er ég tilbúinn að eiga við hann orðastað.

Hvað varðar ýmis önnur dæmi sem hv. þingmaður hefur rakið til þess að reyna að rökstyðja þá afstöðu sína að Evrópusambandið sé lokaður klúbbur sem muni kalla helsi yfir íslenskt samfélag þá er þar margt mjög úr lagi fært, sérstaklega er vert að benda á að hann hefur klifað á því í ræðu og riti að aðild að Evrópusambandinu og nú aðild okkar að EES kalli á að fólk sem hingað leitar um vinnu frá ríkjum utan EES eigi hér lakari réttindi til að fá atvinnuleyfi en EES-borgarar. Þetta hefur hann ítrekað sagt, að þetta sé afleiðing þess að við erum aðilar að EES og þetta verði verra þegar við göngum í Evrópusambandið.

Hv. þingmanni til upplýsingar skal upplýst að það er hvergi kveðið á um það í neinum samningum sem Ísland er aðili að að við megum ekki veita borgurum þriðju ríkjanna nákvæmlega sama rétt og við veitum borgurum EES. Eina ástæðan fyrir þeim forgangsrétti EES-borgara sem er í gildi í dag er sú að félagsmálaráðherrar Framsóknarflokksins hafa markað þá stefnu að láta forgang gilda um EES-borgara og ekki aðra. Þetta er innanlandsákvörðun og eðlilegt að hv. þingmaður endurskoði gífuryrði sín að því leyti í þessu ljósi.