135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:18]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason kýs að klifa á því sem rangt er. Það er allsendis tilhæfulaust að ég hafi haldið því fram að Evrópusambandið væri sambærilegt að lýðréttindum eða mannréttindum við ríki þeirra félaga Hitlers eða Stalíns.

Hitt hef ég talað um að það gætti ákveðinna alræðistilburða með því mikla regluverki sem er innan Evrópusambandsins sem er raunar svo yfirgripsmikið og flókið að engum einum manni hefur tekist að skilja nema brot af því. (Gripið fram í.) Það er mikið langt í frá að einhver hér í þessum sal geri það, þetta er miklu umfangsmeira og meira reglugerðarbákn en að hægt sé að ná höndum þar yfir. (Gripið fram í.) Hjörleifur er nefndur hér úti í sal og mætti þar kannski njóta sérstöðu en þó hef ég ekki þá ofurtrú á honum sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur á þeim flokksbróður sínum.

Það er mikið langt í frá að umræða um alræðistilburði Evrópusambandsins sé ekki samboðin þeim sem vilja taka þátt í þessari umræðu. Það er algerlega eðlilegt að ræða það hvort hið mikla regluverk sem Evrópusambandið leiðir yfir þjóðir sínar, þær miklu hömlur og það mikla helsi sem þær leiða yfir hagkerfi sín sé … (ÁPÁ: Er þingmaðurinn ófrjáls maður?) Frelsi þingmannsins er skert eins og allra annarra borgara í öllum löndum, það eru alls staðar einhverjar skerðingar á frelsi. Talandi um það hvort þær frelsisskerðingar tengist aðild að Evrópusambandinu vil ég benda á að Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu og mikið langt í frá að svo sé, eins og oft er haldið fram af sambandssinnum, að Ísland sé þar að mestu leyti inni þrátt fyrir að við séum í EES-samningi.