135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:31]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er skiljanlegt að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki í stuttri ræðu sinni komist í að fara yfir þær fjölmörgu ræður sem hér hafa verið fluttar og þær fjölmörgu spurningar sem settar hafa verið fram. Kemur enn á ný fram að tíminn er naumt skammtaður þegar stór mál eru undir og mönnum liggur mikið á hjarta. Væri kannski ástæða til að endurskoða það, sérstaklega í svona stórum málum.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gaf við þeim spurningum sem ég lagði fram en hún tók ekki á öllu. Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt, að þingið taki þessi mál til frekari skoðunar og komi betur að þeim, tel ég mikilvægt að velta því fyrir sér hvernig ráðherrann sér það fyrir sér — bæði varðandi þau álitamál sem vikið er að í skýrslunni og menn hafa verið að ræða hér og þau mál sem eru í deiglunni eða kunna að koma inn á næstu missirum. Er ekki eðlilegt að mati ráðherrans að þessi skýrsla sé tekin til efnislegrar umræðu í þingnefndum núna í kjölfarið þannig að menn geti þá farið rækilegar í saumana á þeim atriðum sem hér eru til umfjöllunar, bæði á vettvangi utanríkismálanefndar og enn fremur á vettvangi einstakra fagnefnda þar sem það á við? Er þá ekki sjálfsagt mál ef óskir koma fram um það í þingnefndunum að utanríkisráðuneytið komi að þeim málum með kynningar og upplýsingar?

Ég tel að hér séu það stór mál á ferðinni að mikilvægt sé að láta ekki staðar numið við umræðuna, sem hefur út af fyrir sig verið ágæt en er samt sem áður nokkuð yfirborðskennd, þannig að þessi mál verði áfram rædd hér á þinginu.