135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að frábiðja mér útúrsnúninga hæstv. utanríkisráðherra um innlegg mitt hér í upphafi máls míns áðan um þessa umræðu almennt. Ég tók fram að samskipti okkar við Evrópusambandið, aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, væru snar þáttur í lífi íslensku þjóðarinnar og mjög mikilvægt að reifa þau mál ítarlega.

Ég leyfði mér að gera eins og aðrir, að tala um nauðsyn þess að dýpka umræðuna um aðkomu Íslendinga að utanríkismálum. Ég nefndi Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðaviðskiptastofnunina og fleiri stofnanir í því efni og sagði jafnframt að mikilvægt væri að dýpka umræðuna því að hún væri harla yfirborðskennd og gagnrýndi m.a. hæstv. utanríkisráðherra hvað það atriði snertir.

Ég beindi ákveðnum spurningum til hæstv. ráðherra sem lúta að þjónustutilskipunum og sérstaklega heilbrigðisþættinum sem að sönnu var tekinn undan þjónustutilskipuninni sem slíkri en heyrir undir málasviðið að því leyti að enn er togast á um að hvaða marki eigi að færa heilbrigðismálin undir markaðssáttmálann. Menn eru enn að togast á um þetta efni og voru að gera það í nóvember, voru að gera það í desember, voru að gera það í janúar, sem m.a. varð til þess að á norska Stórþinginu spunnust umræður um þetta efni og í norskum fjölmiðlum þar sem fram kom að forsvarsmenn tveggja flokka töldu koma til álita að Norðmenn beittu neitunarvaldi. Ég spurði hvaða umræður hefðu farið fram um þetta og hvort Samfylkingin teldi koma til álita að beita neitunarvaldi ef viðunandi lausn fengist ekki varðandi heilbrigðismálin.

Síðan vil ég bæta einni spurningu við sem lýtur að orkumálunum. Það kemur fram í þessari skýrslu að þar hefur ekki tekist að koma á markaði, væntingar hafa ekki staðist. Þróunin hefur verið neytendum (Forseti hringir.) almennt í óhag. Kemur til greina að mati hæstv. utanríkisráðherra að leitast við að færa Ísland (Forseti hringir.) undan þeim ákvæðum sem er að finna í tilskipunum á sviði raforkumála?