135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:44]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sannarlega ekki svo að það hljómi algjörlega eins og nýjar hugmyndir í mínum eyrum að einhverjir séu þeirrar skoðunar að Evrópusambandið sé mikið reglugerðar- og skrifræðisbákn. Það hefur auðvitað margsinnis verið sagt, bæði hér í þingsölum og úti í samfélaginu almennt.

Ég var að gagnrýna að menn skuli leyfa sér að slá svona fram án þess að færa fyrir því rök sem eru sannfærandi og lúta þá að sérstöðu Evrópusambandsins í því sambandi því að skrifræðisbáknin eru auðvitað mörg í samfélagi okkar. Við getum þá heimfært það upp á íslenskt samfélag alveg eins og Evrópusambandið ef við svo kjósum. Það sem ég var kannski að gagnrýna er að segja þetta með þessum hætti sem mér finnst oft bera vott um ákveðna leti í hugsun, að slá fram slíkum frösum í þessari umræðu.

Hvað það varðar að samningur við Evrópska efnahagssvæðið þrengi frjálsa för fólks þá gerir hann það ekki. Samningurinn opnar fyrir borgara, eins og ég sagði, þriðju ríkja. Þeir fá réttindi eins og EES-borgarar séu þeir tengdir EES-borgurum fjölskylduböndum. Þetta opnar samningurinn fyrir. (Gripið fram í: En hinir?) En borgarar sem eru utan EES-svæðisins og hafa ekki tengsl við EES-borgara fá dvalarleyfi eftir íslenskum lögum. Það eru bara þau lög sem við höfum ákveðið að setja hér og hefur ekkert með EES-samninginn að gera.