135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[17:58]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að taka upp við hv. þingmann samtal sem við áttum ekki fyrir svo löngu um útlendingafrumvarp sem liggur fyrir þinginu af hálfu dómsmálaráðherra. Við á Íslandi mörkum stefnuna sjálf, þ.e. hvernig við tökum á móti útlendingum hingað, hverjum við hleypum inn og hvernig.

Það er alveg klárt og ég er sammála því að hingað til hafa gilt allt of strangar reglur um þá sem koma frá þriðju ríkjum, þ.e. ríkjum utan EES. Í frumvarpinu sem dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra hafa nú lagt fram í þinginu um atvinnuréttindi útlendinga, er slakað heilmikið á þessum reglum.

Ég tel það t.d. gríðarlega til bóta að hægt verði að fá atvinnuleyfi út frá sérfræðiþekkingu. Jafnframt er verið að rýmka til fyrir námsmönnum frá þriðju ríkjum og fleira get ég tínt til. Sömuleiðis er afnumin svokölluð 24 ára regla sem hefur náttúrlega verið afar umdeild og fleira gæti ég nefnt. Nokkurra ára reynsla er nú komin af hinni ströngu löggjöf sem við höfum haft hingað til og nú er verið að rýmka reglurnar.

Ég fagna því sérstaklega að dómsmálaráðherra hafi gengið í það verkefni ásamt félagsmálaráðherra að rýmka reglurnar gagnvart fólki frá þriðju ríkjum, þ.e. utan EES. Það er okkar mál og okkar ákvörðun að gera það, við þurfum ekki spyrja Evrópusambandið að því hvernig við gerum það. Ég vildi bara koma því að og minna á frumvörpin tvö sem liggja fyrir þinginu í þessari umræðu.