135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:02]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er nú óþarfi að draga Framsóknarflokkinn inn í þessa umræðu, eins og félagi minn Bjarni Harðarson gerði, því að vandamál Framsóknarflokksins er náttúrlega, og á erindi í þessa umræðu að því leyti til, landflutningarnir miklu því að flestir framsóknarmenn eru fluttir til Kanaríeyja, en við þurfum að ná þeim heim. (Gripið fram í: … hittast aftur.)

Í framhaldi af fyrri ræðu minni vil ég bara árétta það að við eigum að fara varlega í að binda trúss okkar við Evrópusambandið. Við sjáum ekki fyrir endann á því. Við eigum að nýta alla möguleika í samningum eins og unnt er en tryggja fyrst og fremst sjálfstæði okkar. Það er það sem skiptir öllu máli og þar komum við kannski að Bjarti í Sumarhúsum á seinni stigum þessarar umræðu.

Það var orðað svo af hæstv. utanríkisráðherra að við værum þéttofin inn í Evrópusambandið og við erum þar svo sem samsíða en það er mikill munur á því að vera í hjónabandi í ríkjasambandi og í viðskiptasambandi. Við þurfum að gera greinarmun á því að tilfinningarnar mega ekki bera okkur ofurliði í viðskiptasambandinu, það hefðu þær átt að gera í hinu sambandinu. (Utanrrh.: Hjónaband er nú viðskiptasamband.) Já, það fer eftir því hvað menn leggja mikla áherslu á ástina og ekki megum við gleyma henni.

Auðvitað eigum við að rækta garðinn til allra átta og hafa dyrnar opnar til allra átta, það er grundvallaratriði, og semja ekki af okkur í neinum efnum hvað það varðar. Við Íslendingar búum við það vandamál, eins og ég vék að í fyrri ræðu minni, að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins fer bæði með framkvæmd og eftirlit. Evrópusambandið hefur ESA, sem fer bara með eftirlitið, og er ekki með heildarsvip á dæminu og þar gildir einfaldlega laganna bókstafur. Þar er mor af lögfræðingum í 60 manna stofnun sem er sérrekin og ef þeir gera mistök, ef þeir samþykkja eitthvað sem á að bæta eða breyta og fá á sig kæru og tapa málinu þá tapar stofnunin ESA, peningarnir eru teknir af rekstrarfé ESA og vafinn liggur allur stofnunarinnar megin, ekki þeirra sem verða fyrir tjóninu, eins og við þekkjum dæmi um á Íslandi og skiptir miklu máli, ekki síst fyrir landsbyggðarsvæðin.

Þetta kerfi er ekki boðlegt fyrir okkur, það er einfaldlega ekki boðlegt. Þess vegna verðum við að standa vaktina vel og bregðast við að menn geti tekið til hendinni ef upp kemur vandi og spúlað dekkið strax, ekki bíða með það í eitt og hálft ár, eins og ég nefndi hér sem dæmi skipalyftuna í Vestmannaeyjum. Það er gjörsamlega út úr kortinu og á við um mörg önnur dæmi sem ég vék líka að. Það er bara þannig að reynslan hefur sýnt að ef ESA getur á einhvern hátt túlkað eitthvað á versta veg þá er það gert. Við höfum engin vopn til að berjast gegn því nema bíða eins og aular og kyngja svo því sem þeir segja.

Við þurfum að horfast í augu við það að Íslendingar eru á sinn hátt fiskur í sjó samfélaganna og við erum fiskur í sjó samfélagsins á vettvangi Evrópubandalagsins. Við megum ekki láta blekkjast, við megum ekki fagna æti í gráðugan kjaft, sem við Íslendingar erum vissulega, og láta það líðast um leið að fyrirbærið Efnahagsbandalagið, sem sumir kalla reyndar skrímsli, nagi af okkur uggana og sporðinn. Slíkur fiskur er ekki til margra hluta nýtur þegar upp er staðið. Þetta er okkar vandamál.

Þess vegna vil ég hvetja hæstv. utanríkisráðherra að láta gera úttekt á verklagi og vinnulagi Íslendinga í þessum efnum, hvað hefur farið úrskeiðis og hvernig hægt er að rétta það af, og gera úttekt á vinnustíl íslenskra stjórnvalda sem hafa í mörgum tilvikum sjálf sett okkur stólinn fyrir dyrnar. (Forseti hringir.)

Í lokaorðum Bjarts í Sumarhúsum í vísunni Stríðið segir:

Því er mér síðan svo stirt um stef

stæri mig lítt af því sem hef,

því hvað er auður og afl og hús

ef eingin jurt vex í þinni krús?

Það er (Forseti hringir.) hjartatónn okkar Íslendinga og hv. þm. Bjarna Harðarsonar.