135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. „Bann við mismunun“, segir hv. þingmaður. Spurningin er um forsendurnar, hverjum sé verið að mismuna. Það er þetta sem borgarstjórarnir í Evrópusambandinu, í tíu mörgum stærstu borgum Evrópu, sem launþegahreyfingin í Evrópu er að andmæla, að Evrópusamruninn sé um of á forsendum fjármagnsins, þ.e. fyrirtækjum sem ekki megi mismuna.

Ég er að taka upp aðra áherslu, áherslu almannaþjónustunnar og velferðarsamfélagsins sem verkalýðshreyfingin og félagsleg öfl ýmis telja ógnað og við erum sífellt að auglýsa eftir umræðu um þessa þætti. Við erum að gera það gagnvart því sem er að gerast í okkar eigin samfélagi og okkar eigin ríkisstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fer með heilbrigðismálin illu heilli og er þegar tekinn til hendinni við að einkavæða innan heilbrigðisþjónustunnar með þögn Samfylkingarinnar. Þögn er sama og samþykki var einhvern tíma sagt. Við erum að horfa til þess sem er að gerast líka í Evrópusambandinu.

Mér finnst í þessari skýrslu dreginn taumur fjármagnsins um of. Það er til dæmis sagt þegar vísað er í frekari skref í einkavæðingu póstþjónustunnar að þessu hafi verið mótmælt af starfsmönnum ríkisrekinna póstfyrirtækja. Þetta eru miklu víðtækari mótmæli og áhyggjur sem koma víðar að úr samfélaginu þegar verið er að stíga slík skref í átt til markaðsþjóðfélagsins en má skilja á þessari skýrslu. Eins finnst mér tónninn vera í raforkumálunum. Þar finnst mér ekki tekinn (Forseti hringir.) upp hanskinn fyrir neytandann heldur sífellt klifað á (Forseti hringir.) markaðshyggju.