135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:25]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara undirstrika mikilvægi þess í ljósi orða hv. síðasta þingmanns að umræða um stórmál sem þessi fari oft og tíðum fram. Það er rétt að erfið og flókin mál hafa klofið þjóðina, jafnt EES-samningurinn sem önnur mál. Grundvallarlærdómurinn sem af því verður að draga er sá að ræða þá þessi mál og næstu stóru spurningar oft og ítarlega og vandlega og af hreinskilni, heiðarleik og virðingu fyrir skoðunum annarra. Það hefur mér fundist almennt séð einkenna þessa umræðu í dag.

Hinn lærdómurinn sem við eigum að draga er síðan að reyna í framhaldinu að vinna málin þannig að við aukum þekkingu á þeim málum sem nú eru að fara að koma upp, vinnum þau almennilega í þingnefnd og undirbúum málin þannig.

Af því að skylt er skeggið hökunni þá get ég hnýtt því við — af því að ég hafði ekki tök á að fara í þriðja andsvarið við hv. þm. Ögmund Jónasson þá get ég farið í andsvar við hann hér svona að hálfu leyti í gegnum hv. þm. Steingrím J. Sigfússon ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mótmælir því ekki — að auðvitað er það nokkur hártogun að ég hafi verið að segja að ekki væri hægt að semja um aðlögun tilskipana sem Ísland tekur upp. Það eru mörg dæmi fyrir því að okkur hafi tekist það. Það sem ég sagði hins vegar var að í tilviki raforkutilskipunarinnar, þar sem ekki var samið um aðlögun á sínum tíma og við nýttum ekki þá möguleika sem við mögulega hefðum getað haft til að fá fram undanþágu, þá er of seint núna að reyna að semja um (Forseti hringir.) undanþágur eftir á.