135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:30]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég kem hérna upp öðru sinni vegna þess að mér fannst ég í rauninni ekki geta lokið alveg máli mínu áðan á tíu mínútum enda svo sem ekki furða þar sem þessi mál eru mjög stór og erfitt að gera grein fyrir afstöðu sinni í þeim í svo stuttri ræðu. Ég heyri nú af máli hv. þingmanna, kannski af því að það líður á kvöldið, að þá er orðinn mikill sáttatónn og það er vel því að þannig náum við niðurstöðu. Mig langar því til að halda svolítið áfram á þeim nótum og ég vil einmitt leggja áherslu á að við höldum uppi málefnalegri umræðu um þetta og lokum þar engum dyrum. Ég held að of lengi hafi Evrópuumræðan einkennst af lokuðum dyrum og ég er reyndar svolítið hræddur um að innan núverandi ríkisstjórnarsamstarfs sé tilhneiging til að loka tvennum dyrum. Annars vegar vilji Sjálfstæðisflokkur til að loka þeim dyrum að ekki sé rætt um aðild að Evrópusambandinu og þá kemur á móti að Samfylkingin lokar þeim dyrum að ekki sé hægt að ræða neitt í sambandi við íslensku myntina nema inngöngu í evrópska myntsamfélagið. Þar með er búið að læsa umræðunni með þeim hætti að hvorki verður komist lönd né strönd.

Ég held að þessi umræða þurfi einmitt að vera opin bæði gagnvart því að það eru ekki komnir þeir tímar, og ég tek undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrr í dag, að við getum metið EES-samninginn endanlega því að við erum enn að reyna þann samning. Það geta verið nýir tímar í því þannig að eitt af því sem við þurfum að ræða er framtíð þess samnings bæði út frá því hvort hann verði áfram eða hvort við eigum að fara aðrar leiðir. Þess vegna finnst mér ekki ástæða til þess í umræðunni að við séum að súpa hveljur yfir því þó að einhver nefni tvíhliða samning eða svissnesku leiðina, það er ein leiðin í þessu, og við eigum að hafa alla möguleika uppi á borðinu. Sama þarf að gilda varðandi gjaldeyrismálin, við þurfum að hafa þar opna möguleika fyrir fleiru en bara því hvort við höfum hér krónu eða tökum upp evru þar sem það er margt sem bendir til að aðrar leiðir séu færar.

Sjálfur hef ég þá afstöðu að eins og Evrópusambandið lítur út núna sé okkur ekki fært að fara þar inn en ég tek fram að ég útiloka ekkert að það geti breyst. Sú mikla samrunaþróun sem þar hefur verið getur snúist í hina áttina, sérstaklega vegna þess sem hér var vikið að í umræðu og hefur oft verið vikið að, vegna þess litla hagvaxtar sem er víða innan Evrópusambandsins getur það kallað á aðrar ráðstafanir þar.

Ég hef miklar áhyggjur af hagsmunum Íslands ef sú spurning kemur upp og raunar innan EES-samningsins en ekki fyrst og fremst vegna sjávarútvegsins því ég hef þá trú að íslenskur sjávarútvegur spjari sig nokkuð og auk þess er hann ekki einn af okkar stærstu vaxtarbroddum. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því hvaða möguleika við eigum á að þróa hér upp alþjóðlega fjármálamiðstöð sem eru mjög miklir möguleikar til eins og við erum vel í sveit sett miðja vegu í heiminum. Þess vegna held ég að það sé mjög mikil ógnun ef við gengjum þessu ríkjabandalagi á hönd. Ég held að þetta ríkjabandalag sé ekki framþróun í þá átt að opna landið, þetta sé leið til að loka því og til að við lokum okkur af. Varðandi þau orð sem hér hafa fallið að allir þeir möguleikar sem við gætum haft í utanríkisviðskiptum mundum við hafa innan Evrópusambandsins stenst það ekki skoðun, ekki frekar en sú hugmynd að vægi smáríkja sé að aukast innan Evrópusambandsins, sem hvergi er hægt að finna neinn stað í neinum raunveruleika.

Raunveruleikinn er sá að við eigum möguleika á því núna að mynda mjög merkilega viðskiptasamninga — og þau mál þekkir náttúrlega enginn betur en hæstv. utanríkisráðherra — við ýmis lönd sem eru algjörlega utan við viðskiptasambönd við Evrópu, sambærileg viðskiptasambönd eins og t.d. Kína og Indland. Þar eru gríðarlega miklir möguleikar og ég held að hin íslenska útrás verði ekki tryggð ef við göngum að þessari umræðu með fyrir fram gefnum forsendum og ekki ef markmiðið með umræðunni á að vera það að ganga inn í Evrópusambandið, heldur þvert á móti þurfi markmiðið með umræðunni að vera það að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar (Forseti hringir.) og framrás útrásarinnar.