135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að slagurinn í Evrópu hefur staðið um landamærin á milli velferðarþjónustu og annarrar þjónustu og markaðsöflin hafa viljað færa þessi landamæri til. Sú skipan mála sem var uppi og þær tillögur sem fyrir lágu urðu þess valdandi að verkalýðshreyfingin efndi til undirskriftasöfnunar og borgarstjórarnir skrifuðu undir vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af gangi mála. Hvort við köllum það mótmæli eða stuðning hvar okkur ber niður, skiptir kannski ekki öllu máli en það var þessi framvinda sem menn höfðu áhyggjur af.

Nú hlær allt stuðningsliðið úr utanríkisráðuneytinu að þessari umræðu. Það væri óskandi að við gætum fært það inn í salinn þannig að það tæki þá þátt í umræðu um sína eigin afurð, þessa skýrslu, sem er í allt of ríkum mæli á markaðsforsendum að því er ég tel. Þessi umræða hefur ekki verið aðhlátursefni innan vébanda verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu og þegar borgarstjórar helstu borga í Evrópu undirrita áskorun sem verkalýðshreyfingin setur fram er það ekki gert að neinni tilefnisleysu. Menn höfðu áhyggjur og hafa haft áhyggjur af framgangi mála og vildu leggja sitt lóð á vogarskálar með félagslegum öflum og verkalýðshreyfingunni í Evrópu.