135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.

[15:06]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér leikur hugur á að beina máli mínu til forsætisráðherra og spyrja hann um stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum og þó einkum og sér í lagi í gjaldmiðilsmálum. Ég held að ástæða sé til að gefa hæstv. forsætisráðherra færi á að reyna að skýra aðeins betur út fyrir þingheimi og þjóð hver stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er eiginlega ef hún er þá einhver til, ef stefnan á ekki bara að ráðast af því hver talar hverju sinni.

Í umræðum um Evrópusamrunamál á fimmtudaginn var talaði hæstv. utanríkisráðherra um krónuna sem viðskiptahindrun sem yrði óþolandi til framtíðar. Hæstv. viðskiptaráðherra notar hvert tækifæri til að tala krónuna niður eins og alkunnugt er og nú bætist varaformaður Sjálfstæðisflokksins í hópinn í ræðu í Valhöll þar sem gefin er út sú lína að sjálfsagt sé að greiða fyrir því að fyrirtæki geti skráð og gert upp ársreikninga sína í evrum, þar með talið væntanlega fjármálafyrirtæki, eða hvað, en gegn því hefur Seðlabankinn lagst. Reyndar stendur líka svo á að hæstv. fjármálaráðherra er með til úrskurðar kæru um að ársreikninganefnd sé gert skylt að heimila skráningu fjármálafyrirtækis í evrum.

Eftir formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, er haft í Fréttablaðinu um helgina að Samfylkingin skapi óvissu í Brussel með tali sínu, herra forseti. Ég gæti lengt þennan lista sem allur er til marks um að stjórnarliðar tala út og suður í þessum málum og það er engin festa í því hvað er fyrirhugað á næstu mánuðum, missirum og árum með gjaldmiðilinn og stefnuna í þessum málaflokki.

Það er meira að segja svo komið að ágreiningurinn virðist ekki bara vera milli stjórnarflokkanna, heldur að einhverju leyti innan þeirra sjálfra, þ.e. að formaður og varaformaður (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins gangi þarna ekki endilega í takt. Hver er staða þessara mála?