135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

staða krónunnar.

[15:13]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það verður framhald á því sem þegar hefur verið rætt hér því að ég ætla að spyrja um nákvæmlega það sama. Það eru engin smátíðindi þegar tvær valdamestu konur á Íslandi hafa tjáð sig í þessu máli, annars vegar hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, annars stjórnarflokksins, og hins vegar hæstv. menntamálaráðherra, staðgengill forsætisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Þær hafa báðar tjáð sig mjög ákveðið í þessu máli. Hæstv. forsætisráðherra verður að gjöra svo vel og tala miklu skýrar. Þjóðin veit ekkert hvað snýr upp og hvað snýr niður í þessu stóra hagsmunamáli hennar, stærsta máli sem við erum að fjalla um í dag.

Það skýrasta sem hefur þó komið frá hæstv. forsætisráðherra í þessu máli er það sem hann sagði í einhverjum áramótaþætti, að ef við ættum að breyta eitthvað í okkar málum hvað varðar gjaldmiðilinn væri dollarinn líklega hentugastur til að taka upp ef við tækjum einhliða upp annan gjaldmiðil. Þetta hefur hann aldrei útskýrt. Kannski getur hann gert það núna. Þetta finnst mér algjörlega út í hött og sýna bara að hann er að reyna að dreifa umræðunni og vill ekki taka á málinu. Þó sagði hæstv. forsætisráðherra ekki alls fyrir löngu — ég tók sérstaklega eftir að hann orðaði það þannig — að það væri hlutverk ráðherra og ríkisstjórnar að mjaka málum til réttrar áttar. Nú er spurningin hvort hann ætlar að mjaka þessu máli eitthvað til réttrar áttar eða hvort hann ætlar að halda áfram að berja höfðinu við steininn og láta sem ekkert sé að gerast í efnahagslífi okkar sem þurfi að taka á — og það af myndarskap.