135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

staða krónunnar.

[15:16]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég tel þetta mjög skrýtið svar frá hæstv. forsætisráðherra. Hvað selja mörg fyrirtæki ál? Þau eru ekki mörg. Þetta svar byggist á andúð Sjálfstæðisflokksins og hæstv. forsætisráðherra á Evrópusambandinu, á evrunni og öllu því sem Evrópu tengist. Það er ekkert annað en það.

Hann felur sig á bak við dollarann þegar flestallir sem láta sig þessi mál varða tala um að evran væri hentugasti gjaldmiðillinn ef við færum í að horfa á þessi mál í alvöru með hagsmuni þjóðarinnar í huga. (GÁ: … ekki dollara?)

Ég verð nú fyrir truflunum í sal, hæstv. forseti, sem … (Gripið fram í: Frá þínum eigin formanni.) [Hlátrasköll í þingsal.] Það er óskaplega (Forseti hringir.) gott ef fólk getur skemmt sér, að hv. þingmenn geti skemmt sér. Það er mjög gott.

(Forseti (StB): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa hljóð þannig að hæstv. forsætisráðherra geti tekið til máls.)