135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

GSM-samband og háhraðatengingar.

[15:20]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gat hér um það sem mátti lesa um í Fréttablaðinu í morgun og svo á vefnum strandir.is, um ákaflega ánægjulegan áfanga sem þar náðist í síðustu eða þarsíðustu viku og var talað um á strandir.is sem byltingu í útbreiðslu GSM-sambands á Ströndum og siglingaleiðum á Húnaflóa vegna uppsetningar á sendi á fjalli sem mig minnir að heiti Steinnýjarstaðafjall og er einhvers staðar norðan við Skagaströnd. Ég verð að játa að ég þekki ekki nákvæmlega hvar það er.

Hann gat enn fremur um það sem líka mátti lesa um, að þegar þessi þjónusta verður komin upp standi hún aðeins viðskiptavinum Vodafone til boða og spyr hvað því líði að Síminn taki upp samband hvað það varðar.

Maður vonar að Síminn geri samning við Vodafone um viðskiptin á þessa sendi alveg eins og Vodafone hefur gert samninga inn á senda sem Síminn setti upp í svokölluðu GSM-útboði 1 þannig að þeir standi þá öllum landsmönnum til nota, þessir sendar sem búið er að setja upp í þessari háhraða- og GSM-byltingu sem á sér stað á landinu fyrir tilstilli Fjarskiptasjóðs. Vonandi gengur þetta eftir sem allra fyrst.

Hins vegar spyr hv. þingmaður eftir háhraðatengingunum. Því er til að svara að eins og mönnum er kunnugt átti því að vera lokið um síðustu áramót. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir af ýmsum ástæðum, m.a. þeirri að fyrirtæki á markaði ætluðu sér að taka stóran hluta lánsins á markaðslegum forsendum en loksins er komið fram að svo er ekki. Nú er unnið að útboði á háhraðatengingum sem verður vonandi sent út á allra næstu dögum, í samræmi við stefnu ríkisstjórnar sem þá getur náð til allt að 1.500 bæja (Forseti hringir.) sem þarf að vinna á í þessu sambandi.