135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

siglingar olíuflutningaskipa í efnahagslögsögunni.

[15:26]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ítarlega hefur verið fylgst með þessu af hálfu Landhelgisgæslunnar og m.a. var haldin hér ráðstefna 2. nóvember árið 2006 með þátttöku manna frá nágrannalöndunum til að fjalla um þetta mál og skipuleggja sameiginlegar aðferðir. Jafnframt hefur verið tekið mið af þessari þróun við hönnun og smíði nýs varðskips sem mun koma hingað til lands árið 2009, jafnframt við smíði og hönnun nýrrar flugvélar sem mun koma hingað til lands árið 2009 fyrir Landhelgisgæsluna. Við allar þessar ákvarðanir hefur verið tekið mið af þessari þróun og líka þeirri staðreynd að það er líklegt að fjöldi þessara skipa muni vaxa á komandi árum og þau verða stærri.

Hv. þingmaður minntist ekki hér á skemmtiferðaskipin sem einnig koma til álita þegar um þessi mál er fjallað. Á síðasta ári er talið að um 55 þús. manns hafi komið með skemmtiferðaskipum hingað til Reykjavíkur. Þessi skip leggja í vaxandi mæli leið sína á svæðið við Grænland og líka hér norður af Íslandi til Jan Mayen og Svalbarða. Þetta eru allt atriði sem hafa verður í huga þegar lagt er á ráðin um framtíðarstarfsemi Landhelgisgæslunnar og ég tel að það hafi verið gert með þeim áætlunum sem við erum að framkvæma með nýju skipi og nýrri flugvél.

Auðvitað má síðan huga að því hvort betur megi gera, hvort fjölga eigi skipunum. Einnig minni ég á að áform eru uppi um að á árunum 2011–2014 komi hingað þrjár nýjar stórar björgunarþyrlur. Þar er einnig tekið mið af þessari þróun.