135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

óundirbúinn fyrirspurnatími.

[15:33]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Því er til að svara að hér er um allsendis eðlisólíka hluti að ræða. Hið svokallaða íslenska ákvæði, ákvörðun 14/CP.7 í Kyoto-bókuninni, varðar eina tegund atvinnustarfsemi, stóriðju sem losar mikið og nýtir endurnýjanlega orku.

Almennt farþegaflug til og frá Íslandi helgast að sjálfsögðu af því að við erum eyja í Norður-Atlantshafi. Hingað kemur fólk og héðan fer fólk ekki öðruvísi en í flugvélum nema það eigi aftur að taka upp siglingar á milli Íslands og Kaupmannahafnar, almennar farþegasiglingar eða annað slíkt. Ég hef ekki orðið vör við að slíkt sé í pípunum. Þetta snýst um hið almenna, um það að íslenskir borgarar eiga ekki annan kost en þann að fara í flugvél héðan og koma hingað í flugvél. Þess vegna viljum við að innan EES-samstarfsins sé tekið tillit til þess hvernig þetta varðar grundvallarhagsmuni Íslendinga. Það er ekki annað sem beðið er um. Það er verið að biðja um eðlilegt tillit til grundvallarhagsmuna Íslendinga sem ferðast ekki til eða frá landinu nema í flugvélum.