135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[15:50]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil taka fram að ég tel ferðir forseta Íslands fullkomlega eðlilegar og í samræmi við þá stjórnarhætti og starfshætti forseta sem tilheyra nútímanum. Ég geri því enga athugasemd við þær ferðir og fjarveru hans frá landinu og tek undir með flutningsmanni um að hann sé forseti þó að hann sé utan landsteina og geti gegnt þar nánast öllum þeim störfum, að ég held, sem stjórnarskráin felur honum. Raunar getur líka komið til greina í undantekningartilvikum að hann skrifi undir lög þó að hann sé ekki staddur á Bessastöðum, ég skal ekki um það segja. Ég hygg að vísu að það sé gert í ríkisráði.

Ég held að það sé líka rétt hjá flutningsmanni að umræða um kostnaðarþátt málsins sé í einhverjum tilvikum óþægileg eins og stendur hér í greinargerðinni en ég held líka að það sé rétt hjá flutningsmönnunum að þessi útgjöld séu ástæðulaus. Auðvitað væri ástæða til og þægilegt fyrir okkur sem hér sitjum að hæstv. forsætisráðherra, sem er viðstaddur, upplýsti um það sem hann veit um útgjöld af þessum toga, þau laun sem hv. og hæstv. handhafar forsetavalds fá í fjarveru forseta og hafa fengið nú síðustu árin.