135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:30]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Jón Magnússon man þetta ekki rétt. Vilmundur Gylfason lagði það til að forsætisráðherra yrði kosinn beinni kosningu en ekki yrði hreyft við forsetaembættinu. Að öðru leyti er þessi umræða orðin nokkuð akademísk og á kannski betur heima í akademíunni en hér á þinginu eins og um það hvernig þingræði eigi að vera háttað eða hvernig við getum hugsað okkur íslenska stjórnskipun án þingræðis. Um forseta Íslands nú verð ég að leiðrétta hv. þm. Jón Magnússon í því að löggjafarvaldið er ekki aðeins hjá þinginu heldur líka hjá forsetanum. Forsetinn og þingið fara saman með löggjafarvaldið á Íslandi eins og sást í þeim atburði þegar forsetinn neitaði lögum staðfestingar og beitti þar með sínum hluta af löggjafarvaldinu. Þarna kemur líka fram í þessu formsákvæði sem við ræddum áðan og hæstv. forsætisráðherra vakti máls á, þ.e. því að forsetinn leggur blessun sína með einhverjum hætti — sem ég ætla ekki að fara að útskýra nánar — yfir stjórnarfrumvörpin.

Ég tel að völd forseta hafi vissulega aukist, reyndar ef maður lítur á söguna hefur verið ýmislegt um þau en þau hafa aukist í tíð núverandi forseta, ég tel ekki að hann hafi tekið sér völd heldur að hann hafi kannski nýtt sér þá möguleika sem honum standa til boða og forsetaembættinu standa til boða í stjórnarskránni og í hefðum og venjum sem við höfum komið okkur upp í kringum þetta. Ég tel, óháð persónu forsetans, að þetta sé skynsamleg þróun, það sé skynsamlegt að það sé nokkur valddreifing með þessum hætti og að fyrir utan áhrifavald forseta eigum við að skýra betur og skilgreina eiginlegt vald hans í forsetakaflanum í stjórnarskránni.