135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:32]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Umræðan hér í dag hefur verið áhugaverð og mörg áhugaverð sjónarmið komið fram. Auðvitað er það rétt að umræðan hefur færst nokkuð fjær meginefni þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Ellerti B. Schram en það er auðvitað ekki óeðlilegt af því að auðvitað þarf að skoða ákvæðin um forsetaembættið dálítið heildstætt. Þess vegna lagði ég áherslu á það í fyrri ræðu minni að það væri rétt að taka þá umræðu sem vakið er máls á með tillögu hans inn í endurskoðun á fyrsta og öðrum kafla stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um forsetann og æðstu handhöfn ríkisvalds í landinu. Þess vegna vakti ég athygli á því sjónarmiði að það væru hugsanlega önnur atriði þar sem þyrfti fremur að skoða en nákvæmlega þetta.

Það byggi ég kannski á því sjónarmiði að það sé engin sérstök ástæða til þess að breyta því sem hefur reynst vel eða vandræðalaust í framkvæmd. Það hefur auðvitað verið vakin athygli á því að kostnaðurinn er nokkur og sjálfsagt að skoða það ef þetta fer inn í nefnd, eins og vænta má, hvernig hann er og hvernig hann hefur þróast í samhengi við aukin ferðalög og utanlandsveru forsetans. Að öðru leyti hefur kerfið gengið áfallalaust fyrir sig og ekki valdið neinum sérstökum vandkvæðum í framkvæmd.

Varðandi aðra þætti stjórnarskrárinnar sem snerta forsetaembættið finnst mér að það sé tvennt sem þurfi fyrst og fremst að skoða, annars vegar þarf að færa þau ákvæði sem eru ekki í samræmi við veruleikann í réttari búning, láta stjórnarskrána og orðalag hennar endurspegla raunveruleikann, a.m.k. í þeim atriðum þar sem ekki er uppi ágreiningur. Það á við um fjöldamörg ákvæði þarna, það er enginn ágreiningur um það hvernig beri að túlka ákvæðin. Þau eru í framkvæmd öðruvísi en ráða má af texta stjórnarskrárinnar og því er sjálfsagt og eðlilegt verkefni að færa þessi ákvæði til samræmis við veruleikann og á ekki að valda neinum vandamálum.

Síðan höfum við önnur ákvæði, eins og hefur hér lauslega verið vikið að, þar sem uppi kann að vera ágreiningur. Það er þá ágreiningur sem snýr bæði að því hvernig túlka beri núgildandi ákvæði og eins ágreiningur um það hvernig menn vilja sjá það fyrirkomulag til framtíðar. Þá kemur auðvitað fyrst upp í hugann 26. gr. sem varðar synjunarvald forseta á því að staðfesta lagafrumvörp og þar tel ég að sé mikilvægt að koma réttarstöðunni á hreint. Við upplifðum sumarið 2004 mikinn ágreining út af þessu ákvæði og án þess að ég ætli að fara að endurtaka þá deilu held ég að bæði sá stjórnmálalegi og stjórnskipulegi ágreiningur sem kom upp í þeirri atburðarás kalli á að það ákvæði sé endurskoðað, hvaða stefnu svo sem menn vilja taka í því. Hvort sem menn vilja að forseti hafi persónulegt synjunarvald eða ekki verður að taka af skarið. Ef menn vilja að forseti hafi persónulegt synjunarvald þarf líka að fjalla um það í stjórnarskrá hvernig með skuli fara í framhaldi af ákvörðunum forseta um að beita slíku synjunarvaldi, því að eins og við þekkjum frá sumrinu 2004 komu upp skiptar skoðanir um form og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu og fleiri þætti sem tengjast afleiðingum ákvörðunar forseta um að synja lagafrumvarpi staðfestingar. Þar eru því atriði sem við þurfum að taka afstöðu til, eiginlega höggva á hnút eða koma réttarstöðunni á hreint þannig að það sé skýrt.

Þar togast auðvitað á tvenns konar sjónarmið og þau mótast nokkuð af grundvallarafstöðu manna til forsetaembættisins og þá vík ég að því sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Magnússonar, sem flutti hér ágætt mál áðan þó að ég taki ekki endilega undir tillögur hans, að við þurfum þegar við horfum á forsetaembættið til frambúðar að gera það upp við okkur hvort við viljum að forsetaembættið sé virkt í pólitískri umræðu, hvort við viljum að forsetinn sé virkur pólitískur þátttakandi eða þjóðkjörinn leiðtogi sem situr á friðarstóli og blandar sér ekki í pólitísk átök. Ég held að við þurfum í meginatriðum að taka afstöðu til þessara spurninga þegar við mörkum forsetaembættinu (Forseti hringir.) stefnu til frambúðar. Síðan getum við skoðað spurninguna (Forseti hringir.) sem hv. þm. Ellert B. Schram varpar upp í sambandi við tæknilega útfærslu í framhaldinu.