135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:44]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams segja það að við skulum leggja til hliðar öll stóru viðfangsefnin í þessu eða meginlínur og velta fyrir okkur praktísku hlutunum í sambandi við handhöfn forsetavaldsins ef tillagan næði fram að ganga. Ég heyrði ekki betur en að í lok ræðu sinnar væri hv. þingmaður að vísa til þess að forseti gæti þá hugsanlega falið einhverjum að undirrita fyrir sína hönd. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann hugsi það nánar, hvort það verði almennt umboð eða umboð til þess að undirrita tiltekna gerninga eða hvernig það yrði.

Það sem ég velti fyrir mér þegar ég las frumvarp hv. þingmanns var einmitt þetta: Setjum sem svo að við göngum skrefið þessa leið og fellum niður þátt handhafa forsetavalds í þeim tilvikum þegar forseti er á ferðalögum erlendis. Þá var mér hugsað til þess hvernig þetta er í raun og veru þegar forseti er fjarvistum jafnmikið og raun ber vitni og hefur farið vaxandi og engin ástæða til þess að gera lítið úr því eða gera ágreining um það, það er bara staðreynd að forseti er miklu meira á ferðalögum erlendis en nokkru sinni fyrr, þannig að við stöndum frammi fyrir því praktíska viðfangsefni að finna lausnina, hvernig ætlum við að láta undirritunina eiga sér stað? Ætlum við að hætta að gera kröfu um eiginhandarundirritun, ætlum við að hætta að gera kröfu um undirritun yfir höfuð? Það er líka lausn að það þurfi ekki undirritun forseta á alla þá gerninga sem þörf er á í dag. Eða þá, eins og kom kannski hérna fram í lokin hjá hv. þingmanni, getur forseti falið einhverjum, forseta Alþingis eða einhverjum, að undirrita fyrir sína hönd? Það var (Forseti hringir.) eiginlega það sem ég vildi fá skýrar frá hv. þingmanni.