135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:46]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hugmyndin og hugsunin hjá okkur flutningsmönnunum var fyrst og fremst sú að þrátt fyrir dvöl erlendis ætti það ekki að skipta máli hvort forsetinn hefði tök á því að skrifa undir einhvern tiltekinn dag, nákvæmlega á einhverjum tíma þegar hann er er í burtu. Hugmyndin er sú að með þessum nýju samgöngum þá ætti það að vera auðveld leið fyrir forsetann að koma þá heim til þess að gegna þeirri embættisskyldu sinni ef hún væri svona áríðandi ella gæti það þá bara orðið um frest að ræða þangað til hann kemur heim. Ég hélt kannski að það væri lausn á málinu.

Ef hins vegar það bráðliggur svo á að hann þurfi að skrifa undir lög bara á stundinni þá held ég líka — ég var nú að ýja að því áðan — þá er náttúrlega til sú leið, hvort sem það er bundið í stjórnarskrá eða í almennum lögum, að forseti Íslands geti falið öðrum háttsettum embættismanni umboð til þess að skrifa undir lög eða samninga eftir atvikum með sínu samþykki þegar hann er fjarverandi sjálfur. Ég get ekki séð annað en að menn gætu komist að einhverju samkomulagi um það hvaða embættismaður það ætti að vera. Það gæti eftir atvikum verið forseti Alþingis. Það gæti verið um að ræða forsætisráðherra eða forseta Hæstaréttar. Það finnst mér ekki skipta öllu máli. Þetta er praktískt úrlausnarefni sem mér finnst að eigi að minnsta kosti ekki að vera hindrun fyrir því að við gerum þessa sjálfsögðu breytingu á úreltum ákvæðum í stjórnarskránni.