135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[16:49]
Hlusta

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um nýtt starfsheiti fyrir ráðherra. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa breytingar á stjórnarskrá og lögum til að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geta borið. Nauðsynleg lagafrumvörp verði lögð fram hið fyrsta.“

Eins og þingmenn eflaust vita þá vakti framlagning þessa þingmáls nokkra athygli hér á haustdögum þó svo að ég hafi ekki haft tækifæri til þess að mæla fyrir tillögunni í þingsölum fyrr en akkúrat núna. Það er merkilegt stundum að velta því fyrir sér hvaða mál sem við ræðum á Alþingi rata í fréttir og hver ekki. Ég hef nú verið að nefna það að ég hef mælt hér fyrir málum sem lúta að ýmsum samgöngubótum. Ég hef verið að tala hér um Sundabraut og forgangsakreinar strætisvagna í umferðinni sem hafa þó fengið mun minn athygli í fjölmiðlum heldur en þetta tiltekna mál. Það er eins og ég segi athyglisvert að velta fyrir sér hvað gerir það að verkum að þessi tillaga vekur svona sterk viðbrögð. Varla er það vegna þess að málið sé svo ómerkilegt og óspennandi að fólk hafi ekki áhuga á að ræða það. Ég held þvert á móti, hæstv. forseti, eins og oft er með mál í hinni samfélagslegu umræðu, að þessi tillaga hafi hitt á einhvern þann tímapunkt að menn hafi verið tilbúnir til þess að ræða það opinberlega svona opið og æsingarlaust og án fordóma. Ég minni á að þegar málið — af því þetta er ekki nýtt mál — var lagt hér fram á sínum tíma að þá hygg ég að einn hv. þingmaður hafi talaði fyrir því þá. Það hlaut engan framgang. (Gripið fram í.) Það sofnaði í nefnd og eins og einhver lýsti því þá var málinu lýst sem hallærisgangi þess tíma.

Núna árið 2008 þegar ég endurflyt þetta mál sem Guðný Guðbjörnsdóttir, þáverandi þingkona Kvennalistans, flutti virðist vera meiri hljómgrunnur fyrir því að ljá því máls. Ég held að það sé líka fróðlegt að velta því fyrir sér upp úr hvaða — hvað á ég að segja — upp úr hvaða jarðvegi þessi frjóa umræða sprettur núna. Þegar málið rataði í fjölmiðla á liðnu hausti hafði verið þó nokkur umræða um íslenska tungu, íslenska menningu og 200 ára ártíð Jónasar Hallgrímssonar sem var minnst með ýmsum hætti. Þetta er svona angi af þeirri umræðu. En þetta er auðvitað líka kvennabarátta. Kvennabaráttan hefur á mismunandi tímum birst okkur með ólíkum hætti. Við sem berjumst fyrir bættum kjörum kvenna og jafnrétti kynjanna og við sem köllum okkur femínista verðum vör við það og skynjum mjög sterkt þá kröfu að það þurfi alltaf að koma með eitthvað nýtt inn í umræðuna. En þetta nýja ... (Gripið fram í.) um leið og krafan kemur fram um þetta nýja þá má þetta nýja alls ekki „vera gamalt“. Það má alls ekki vera lummó og það má alls ekki vera of róttækt. Stundum er það þannig, og ég hef sagt það áður hér úr þessum ræðustóli, að maður upplifir þessa baráttu sem baráttu við vindmyllur oft og tíðum. Það er tekið eitt skref fram á við og svo þarf því miður að stíga tvö aftur á bak. Þrátt fyrir allt þá er það viðtekin skoðun að það sé lummó að tala um vinnuálag kvenna, það sé lummó að tala mikið um jafnréttismál og það sé hallærislegt að tala um að konur hafi ekki sömu tækifæri og karlar.

Af hverju er ég að nefna þetta í samhengi við umræður um þessa þingsályktunartillögu? Jú, vegna þess að þessi tillaga til þingsályktunar sem ég flyt hér núna er bara einn lítill, örlítill angi og ekki örlítill angi af kvennabaráttunni og ekki það að þetta sé málið eða þetta sé það sem skiptir öllu. En þetta er ákveðið birtingarform á mismunun sem ég tel alveg við hæfi að sé rætt hér á Alþingi og alveg við hæfi að það sé flutt hér þingsályktunartillaga um þetta. Eins og segir í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu þá er það þannig að á undanförnum árum í hefðbundnum kvennastéttum hefur þróunin verið þannig að þegar karlar hafa haslað sér völl á vettvangi sem konur hafa sinnt áður hefur starfsheitum undantekningarlaust verið breytt til þess að bæði kyn gætu með reisn borið þessi starfsheiti. Karlarnir sem fóru inn í hjúkrunarkvennaskólann á sínum tíma gátu ekki hugsað sér að láta kalla sig hjúkrunarkonur. Starfsheitinu var breytt. Nú er talað um hjúkrunarfræðinga. Fóstrur urðu að leikskólakennurum vegna þess að körlum sem fóru inn í Fóstruskóla Íslands, eins og hann hét á þeim tíma, gátu ekki hugsað sér að láta kalla sig fóstrur. Og ekki nóg með það að starfsheitinu hafi verið breytt heldur var nafni skólans líka breytt. Hann hét eftir það Fósturskóli Íslands og starfsstéttin bar nafnið leikskólakennarar.

Það er þannig með miklu fleiri stéttir en ég hef nefnt hér. Í nágrannalöndum okkar eru gjarnan notuð orð yfir þá sem gegna æðstu embættum í ríkisstjórnum þeirra landa sem eru kynhlutlausari. Það er til dæmis notað secretary í Bandaríkjunum og Englandi og minister á Norðurlöndunum. Í Frakklandi eru gjarnan bara notuð orðin madame la ministre í stað hins hefðbundna le ministre. Það er auðvitað allar útgáfur af því í heiminum hvernig menn hafa farið að því að leysa þetta vandamál ef vandamál skyldi kalla.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lesa upp úr greinargerðinni sem hér liggur fyrir. Ég vil þó nefna það hér svona til gamans í lokin að þegar ég hreyfði þessu máli í haust þá fékk ég gríðarlega sterk viðbrögð almennings við þessu máli sem sagði mér það sem ég sagði einmitt í upphafi, að ég held að kannski kunni að vera, eins og einhver sagði, að þetta væri svona lítið sætt mál sem fólki þætti gaman að tala um á kaffistofunum. Gott og vel. Það er þá ágætt að við getum skemmt fólki líka inn á milli alvarlegu málanna sem verið er að ræða hér. En ég fékk gríðarlega sterk viðbrögð frá almenningi og ekki bara hér innan lands heldur líka frá Íslendingum sem eru búsettir erlendis sem sendu mér skeyti og höfðu samband og komu með alls kyns hugmyndir að nýjum heitum.

Í þessari þingsályktunartillögu hef ég ekki neina útfærða hugmynd um hvaða orð við ættum að nota heldur gengur þessi tillaga út á það að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa breytingar á stjórnarskránni. Þau orð sem oftast voru nefnd í mín eyru eru til dæmis ráð og ráðandi, þannig að þá væri talað um umhverfisráð og utanríkisráðanda. Menn hafa líka nefnt við mig orð eins og ráðfrú og ráðherra og þá færi það einfaldlega eftir kyni þess sem gegndi embættinu hverju sinni hvort það væri samgönguráðfrú eða samgönguráðherra. Þá gætum við farið svipaða leið og Frakkar.

Svo auðvitað heyrðust alls kyns orð sem sumum fannst fyndin eins og ráðherfa sem gekk hér ljósum logum á netinu. Síðan var það ráðseti og ráðseta, það væri utanríkisráðseta ef kona gegndi embættinu en ráðseti ef það væri karlmaður. Ýmislegt hefur verið nefnt í þessu sambandi.

Ég ætla, herra forseti, ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég geri ráð fyrir því að þessi tillaga fari í ákveðið ferli og ég vona að ekki fari fyrir þessu máli eins og fór fyrir því fyrst þegar það var lagt fram, að því var vísað í nefnd. Þar var það svæft og vaknaði ekki aftur til lífsins fyrr en um 15 árum síðar — að menn taki nú þetta mál, skoði það af fullri alvöru og setji það í einhvern farveg.