135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:12]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig nú fara efnislega í gegnum þessa umræðu og þykir miður að hv. þingmaður skuli slá ræðu mína þannig út af borðinu að hún hafi ekki verið efnisleg. Ég fór einmitt efnislega í þessi mál. Ég benti á nokkur skref sem stigin hafa verið á undanförnum árum af síðustu ríkisstjórn, sem voru afar þörf og brýn jafnréttismál.

Ég held að hlutverk nýrrar ríkisstjórnar sé einmitt að láta verkin tala. Ég held að það séu mörg brýnni mál fram undan, eins og að leiðrétta laun ýmissa kvennastétta. Það er nokkuð sem ríkisstjórnin ætti að vinna í frekar en einmitt þetta.

Ég er samt ekki að gera lítið úr þessu. Ég vildi bara benda á að ég hef aðra skoðun á málinu en hv. þingmaður. Það er ekki rétt að til þess að slá þessa umræðu út af borðinu sé bent á eitthvað annað. Ég er ekki einu sinni viss um að þetta sé innlegg í jafnréttisbaráttuna. Að mínu viti snýst jafnréttisbarátta um að á hvorugt sé hallað, karl eða konu. Ég er ekki viss um að þetta skref sé eitthvert lykilatriði í því. Þá eru svo mörg önnur hugtök sem við þurfum að breyta.

Við erum öll alþingismenn en auðvitað eru þá væntanlega einhverjir sem ... (SVÓ: Við erum ekki alþingiskarlar.) Nei, en við erum ekki alþingiskarlar og í því liggur einmitt munurinn á þessu og ég þakka fyrir þetta frammíkall. Ég er einmitt þeirrar skoðunar að konur geti verið herrar. (Forseti hringir.) Þær geta verið ráðherrar (Forseti hringir.) og þær eru það í augnablikinu.