135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:14]
Hlusta

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson hafi aðeins misskilið það sem ég var að segja hér í ræðustóli áðan. Þessi þingsályktunartillaga sem ég mæli hér fyrir lýtur ekki að því að taka upp karlkynsnafnorð og breyta þeim í einhver kvenkynsnafnorð eða finna einhver kynhlutlaus orð yfir það.

Það er bara þannig að kona getur ekki verið herra frekar en hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson getur verið frú. Það stríðir ekki einungis gegn málvitund okkar að nota þessi orð eins og að kona sé herra heldur er það bara algjörlega merkingarlega útilokað. Ég á ekki von á því að nokkur beri á móti því að segja að það sé merkingarlega útilokað að kona sé herra á sama hátt og karl getur ekki verið frú. (Gripið fram í.)

Síðan geta menn farið að tala hér um menn og karla og konur. Aðalatriðið sem ég legg áherslu á í þessu máli er að finna kynhlutlaust orð sem allar konur, sem kæra sig um og taka sæti í ríkisstjórn Íslands, geti látið kalla sig hvort sem það er „ráðfrú“, „ráðandi“, „ráð“ eða annað en ekki hið merkingarþrungna orð „herra“.