135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:37]
Hlusta

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil í lokin þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram í þingsölum um þetta mál. Mér fannst umræðan á tímabili vera farin svolítið frá aðalatriði málsins og þegar hv. þingmenn voru farnir að koma í ræðustól og tala um að það séu önnur þarfari mál í jafnréttismálum en þetta til að fást við þá verð ég að segja alveg eins og er að með því finnst mér menn vera að drepa málum á dreif. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni útilokar eitt ekki annað í jafnréttismálunum og þetta er einn lítill angi af birtingarmynd ójafnréttis kynjanna svo það sé bara orðað eins og það er.

Kjarni málsins er þessi: Það særir held ég ekki málkennd nokkurra kvenna né manna að láta kalla sig forstjóra, kennara eða borgarstjóra ef út í það er farið en ég hygg að það særi málkennd mjög margra kvenna að láta kalla sig herra. Ef það er rétt sem hv. þm. Árni Johnsen sagði í ræðu sinni áðan að ekkert mæli gegn því að kona sé herra, eins og hv. þingmaður hélt hér fram, þá hlýtur það sama að eiga við um karla, ekki satt? Þá hlýtur það að fela þann sama skilning í sér að ekkert mæli gegn því að karl sé frú, ef halda á þessum rökstuðningi til haga. Ég er nokkuð viss um það, hæstv. forseti, að þeim karlkyns þingmönnum sem hafa rætt málið úr þessum ræðustóli í dag þætti ekkert býsna skemmtilegt að láta ávarpa sig sem frú. Ég er viss um að það mundi særa málkennd þeirra á sama hátt og það særir málkennd margra kvenna að láta kalla sig herra, vegna þess, svo ég segi það enn og aftur, að það merkingarleysa að kona geti verið herra alveg eins og það er merkingarleysa að karl sé frú. Þetta á ekkert skylt við önnur karlkynsnafnorð eða kvenkynsnafnorð ef út í það er farið. Þetta er orð sem á sér sögu, orð sem verður til í umhverfi sem er gjörólíkt því sem við búum við í dag.

Hvað er að því árið 2008 að ræða þetta mál æsingalaust og fordómalaust í sölum Alþingis og taka okkur til fyrirmyndar aðrar þjóðir sem eru með orð yfir þessi starfsheiti sem eru kynhlutlausari en þetta orð sem við erum að tala um í dag?

Það var gagnrýnt úr þessum ræðustól að í greinargerð væri ekki getið um nein ný orð, engar hugmyndir. Í fyrri ræðu minni nefndi ég nokkur orð sem hafa komið upp. Ég segi: Leitum til þar til bærra aðila, íslenskufræðinga, Háskóla Íslands og þess vegna má kalla eftir hugmyndum frá þjóðinni um það, efna til hugmyndasamkeppni um eitthvert nýtt orð. Það kann vel að vera að út úr því komi eitthvert orð sem allir geta sætt sig við, eitthvert orð sem ég hef ekki hugmynd um hvað er í dag, ekki frekar en aðrir hér.

Hæstv. forseti. Mig langar til að segja frá því að síðastliðið haust þegar ég hreyfði þessu máli fyrst, eins og ég gat um áðan, fékk ég gríðarlega mikil viðbrögð, m.a. erlendis frá. Ég ætla að leyfa mér að nefna þann aðila sem hefur verið í stöðugum bréfaskriftum við mig út af því máli sem er Kristinn R. Ólafsson, landsþekktur útvarpsmaður og fréttamaður, áhugamaður um málfar og íslenska tungu. Hann sagði mér til að mynda frá því að hann væri höfundur að ýmsum nýyrðum í íslenskri tungu, orðum sem í dag þykja sjálfsögð, t.d. eins og orðið Börsungur, sem er orð sem Kristinn R. Ólafsson kom inn í íslenska tungu og orðið grænfriðungur. Þetta eru orð sem öllum finnast sjálfsögð í dag. Ég er alveg viss um að ef við köllum eftir ráðum færustu sérfræðinga og þeirra sem eru hugmyndaauðugir og frjóir í hugsun og íslenskri tungu verður hægt að finna orð særir hvorki málkennd karla né kvenna sem þessi heiti þurfa að bera.

Ég ítreka í lokin að ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þessa þingsályktunartillögu.