135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:43]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Reyndur þingmaður, sem nú er látinn, Ólafur Þ. Þórðarson, ávarpaði alltaf forseta með titlinum herra, alveg sama hvort það var karl eða kona og var aldrei sett ofan í við hann fyrir það. Það er bara hluti af þessari merkingu.

Það má nefnilega ekki rugla því saman, eins og hv. flutningsmaður þessa máls gerði, að það er munur á málfræðilegri samsetningu sem er kynbundin og merkingarlegri samsetningu í málinu. Íslensk tunga hefur eins og önnur tungumál orðið til á löngum tíma. Þetta er bara spurning um hvort eigi að slípa það út eða virða. Þar sem hefðin er orðin svo rík og svo sterk að fólk er ekki að kyngreina orðið ráðherra, að mínu mati, það er bara alls ekki að því, þá skiptir þetta ekki máli. Þetta er fallegt orð og ber virðingu í sér og það er kannski sérstaklega mikilvægt þegar kemur að ráðherrum að því fylgi slík virðing og viðurkenning.

Kristinn R. Ólafsson er gott dæmi um mann sem hefur komið með mörg nýyrði. Börsungur á við um fólk frá ákveðnu landsvæði á Spáni, grænfriðungur stendur eiginlega fyrir nýja stefnu í félagsmálum í heiminum. Kristinn R. Ólafsson er Eyjamaður og þeir eru ferskir í orðanotkun, hann er bróðir hins ástsæla Ása í Bæ og þeir voru snillingar í meðferð máls og eru. En það er munur á þessari merkingu og málfræðinni.