135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

siðareglur opinberra starfsmanna.

317. mál
[17:48]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég bið afsökunar á því að hafa verið sein í ræðustól en það er ágengni fjölmiðla sem vilja gjarnan fá að heyra af því máli sem ég ætla að mæla fyrir sem orsakaði það. Það er eðlilegt að fjölmiðlar séu forvitnir um mál af því tagi sem hér er fjallað um en ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 459 sem flutt er af tveimur hv. þingmönnum auk mín, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni.

Tillagan felur það í sér að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að setja siðareglur sem ætlaðar verði öllum opinberum starfsmönnum, þar með töldum þingmönnum og opinberum embættismönnum, í vinnuferðum. Reglurnar mæli svo fyrir að opinberum starfsmönnum sé óheimilt að kaupa kynlífsþjónustu af nokkru tagi eða þiggja kynferðislega greiða í vinnuferðum á erlendri grundu. Siðareglurnar skulu kynntar viðkomandi við upphaf starfstíma og þær staðfestar með undirritun.

Hæstv. forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að mansal er vaxandi áhyggjuefni á alþjóðavettvangi og nú þegar hafa ýmsir alþjóðasamningar verið undirritaðir til að hvetja til ábyrgrar afstöðu og aðgerða til að stemma stigu við mansali. Þar má nefna samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og einnig samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að sporna við skipulagðri fjölþjóðlegri glæpastarfsemi og sérstakri bókun við þann samning, Palermó-samninginn. Sá samningur var undirritaður fyrir Íslands hönd þann 13. desember árið 2000 en bíður enn fullgildingar því miður. Þeim samningi er ætlað að taka sérstaklega á mansali, ekki síst í þeim tilfellum þar sem konur og börn eru seld milli landa í kynlífs- og klámiðnaðinn og til að tryggja fórnarlömbunum vernd og aðstoð.

Ég verð að segja, eins og oft hefur borið á góma hér í þessum þingsal, að mér þykir það miður að íslenskir ráðherrar skuli ekki enn hafa fylgt undirritun samningsins eftir með fullgildingu hans og innleiðingu í íslenska löggjöf og ég hef gagnrýnt ríkisstjórnir fyrir það, bæði þá sem nú situr og einnig þær sem á undan hafa setið, að menn skyldu ekki hafa brugðið hraðar við hvað þetta varðar og enn er ekki búið að mæla fyrir endanlegri fullgildingu Palermó-samningsins.

Hins vegar var samningurinn um afnám allrar mismununar gagnvart konum samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 18. desember 1979. Hann tók gildi 10. október 1985 og var undirritaður fyrir Íslands hönd 24. júlí 1980 en fullgiltur 18. júlí 1985. Í 6. gr. þess samnings segir að aðildarríki skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir til að hamla gegn hvers konar verslun með konur og gróðastarfsemi tengdri vændi. Við Íslendingar erum bundin af alþjóðarétti að 6. gr. eins og öðrum greinum þessa samnings

Það hefur farið fram töluverð umræða um úrræði gegn mansali á vettvangi Norðurlandanna og Norðurlandaráð hefur beint þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlandanna að þær bregðist við og reyndar hafa verið send fleiri en ein tilmæli til ríkisstjórnanna til þess að tryggja að þær setji mansal á dagskrá hjá sér. Hér er ég sérstaklega að tala um tilmæli nr. 9 frá 2003, en í þeim tilmælum mælir Norðurlandaráð með því að ríkisstjórnirnar beiti sér fyrir því að norrænu löndin móti sameiginlegar aðgerðir gegn vændi og verslun með konur, einkum hvað það varðar að vinna gegn eftirspurn eftir konum og börnum til vændis og kynferðislegrar misnotkunar í löndum okkar. Sömuleiðis að ríkisstjórnirnar móti og framfylgi bindandi siðareglum sem banna opinberum starfsmönnum, starfsmönnum hersins og þróunarhjálparstarfsmönnum að kaupa kynlífsþjónustu. Reglurnar eiga bæði að gilda þegar viðkomandi starfsmenn eru við störf og í frítíma í tengslum við verkefni af þessu tagi. Aðilar vinnumarkaðarins eru svo hvattir til að setja sambærilegar reglur.

Í þriðja lagi fela tilmæli Norðurlandaráðs til ríkisstjórna Norðurlandanna það í sér að ríkisstjórnirnar beiti sér fyrir samræmingu löggjafar um kaup á kynlífsþjónustu á Norðurlöndunum í þeim mæli sem það samræmist mismunandi stefnumótunarviðmiðum í afbrotamálum í löndunum.

Ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa, virðulegi forseti, sett sér sérstakar aðgerðaáætlanir sem ætlaðar eru til þess að gera baráttuna gegn þessari skipulögðu glæpastarfsemi markvissari, reyndar ekki allar ríkisstjórnirnar því að Íslendingar eru þarna eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna eins og oft áður. Sú sem hér stendur hefur margsinnis innt ríkisstjórn Íslands eftir því hvort ekki standi til að setja slíka aðgerðaáætlun hér á landi. Hingað til hefur ríkisstjórnin ekki séð ástæðu til að innleiða slíka aðgerðaáætlun þangað til í desember sl. að hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, tilkynnti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að í bígerð væri að vinna slíka áætlun. Ég fagna því og tel þetta vera m.a. árangur af 16 daga átaki ýmissa kvennahreyfinga sem lauk 10. desember á alþjóðlegum mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna. Þetta 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi var í þetta sinn helgað baráttunni gegn mansali og því lauk með því að ríkisstjórninni voru afhentar um 1.700 undirskriftir þar sem ríkisstjórnin var hvött til þess að setja aðgerðaáætlun gegn mansali. Nú er því búið að tilkynna að það verði gert og því ber að fagna.

Aðgerðaáætlanir nágrannalanda okkar, sem eru í anda alþjóðlegrar umræðu og sáttmála, hafa að geyma ákvæði sem varða nákvæmlega það sem hér er um rætt, siðareglur fyrir fulltrúa þjóðarinnar á erlendri grundu. Með því að setja siðareglur af þessu tagi er hið opinbera að reyna að standa vörð um virðingu þjóðanna, virðingu okkar á alþjóðavettvangi, en það hlýtur að gefa augaleið að það er mikilvægt fyrir ríkið að starfsfólk þess hagi sér ekki á einhvern þann hátt sem gæti rýrt virðingu samstarfsaðila fyrir okkur. Við værum með því að setja reglur af þessu tagi að taka mikilvægt skref í baráttunni gegn mansali og lýsa því yfir að við öxlum okkar ábyrgð í alþjóðasamfélaginu.

Ríkisstjórn Noregs samþykkti hinn 17. október 2002 að taka upp siðareglur fyrir opinbera starfsmenn um bann við bæði kaupum á vændi og við því að þiggja kynlífsþjónustu sem greiða í gistilandi. Þessar reglur Norðmannanna eru hluti af aðgerðaáætlun norsku ríkisstjórnarinnar gegn mansali og í þeim segir skýrt að eftirspurn eftir kynlífi sé grundvöllur hins alþjóðlega vændisiðnaðar og þar með ástæða þess vaxandi alvarlega vanda að konur og börn gangi kaupum og sölum milli landa sem kynlífsþrælar. Í norsku reglunum segir að sem vinnuveitanda beri hið opinbera ábyrgð á starfsemi og orðspori opinberrar þjónustu og vilji þar af leiðandi búa svo um hnútana að opinberir starfsmenn hegði sér á þann hátt að það ógni ekki eða brjóti gegn mannlegri reisn fólks í þeim löndum sem fulltrúar þjóðarinnar heimsækja. Norska ríkisstjórnin vill með reglunum sýna vilja sinn í verki og gangast við þeirri ábyrgð sem hvílir á herðum fulltrúa þjóðarinnar á erlendri grund. Reglunum er með öðrum orðum ætlað að koma í veg fyrir að brotið sé gegn mannhelgi fólks sem réttur hefur verið brotinn á með því að hafa verið hneppt í kynlífsánauð.

Virðulegi forseti. Siðareglurnar norsku eru ótvíræð yfirlýsing um það hvaða siðrænar og siðferðilegar væntingar eru gerðar til embættismanna norsku ríkisstjórnarinnar og annarra opinberra starfsmanna. Í reglunum er skýrt kveðið á um að kaup á vændi eða önnur kynlífsþjónusta geti falið í sér misneytingu fólks sem býr við erfiðar aðstæður auk þess sem slíkt háttalag hafi óhjákvæmilega neikvæð áhrif á ímynd viðkomandi starfsmanna, skaði orðstír Noregs og þess starfs sem unnið er í nafni þjóðarinnar.

Sömuleiðis segir í reglunum að hverjum þeim ríkisstarfsmanni sem ferðist í embættiserindum eða á vegum hins opinbera, jafnt innan lands sem á erlendri grundu, sé óheimilt að kaupa vændi eða þiggja kynlífsþjónustu af neinu tagi. Þetta á samkvæmt norsku reglunum einnig við um frjálsan tíma viðkomandi starfsmanns í þeim verkefnum sem sinnt er. Þá er kveðið á um það að hið opinbera vænti þess sem vinnuveitandi að starfsmenn þess framfylgi þessum reglum af trúmennsku og setji framferði sínu að þessu leyti mjög strangar skorður. Loks segir í reglunum að sé ekki farið eftir þeim geti það leitt til viðurlaga við agabroti samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Virðulegi forseti. Það eru ekki bara Norðmenn sem hafa sett sér reglur af þessu tagi, það hafa Svíar líka gert. Þær reglur gilda um starfsfólk í sænsku utanríkisþjónustunni og voru settar þegar í ljós kom eftir athuganir að töluverður hluti opinberra starfsmanna í Svíþjóð — reyndar hafa sambærilegar kannanir í Noregi verið gerðar og leitt hið sama í ljós — kaupir sér eða hefur keypt sér kynlífsþjónustu eða þegið hana í boði heimamanna á ferðalögum sem tengjast starfi viðkomandi.

Til viðbótar við það sem hér hefur verið talið, virðulegi forseti, má geta þess að nokkur fjöldi stórfyrirtækja í Noregi hefur séð ástæðu til þess að setja starfsfólki sínu svipaðar siðareglur og hér um ræðir. Þær hafa þannig breiðst út í einkageirann og hafa Norðmenn litið á það sem jákvæðan árangur af því starfi sem ríkisstjórnin hefur sinnt að þessu leyti.

Af öllu þessu, virðulegi forseti, verður að draga þá ályktun að kynlífsþjónusta hafi verið og sé hluti af alþjóðlegum samskiptum þjóða og því nauðsynlegt fyrir okkur að tryggja að Ísland á sama hátt og önnur lönd þurfi að taka virka afstöðu gegn slíkri háttsemi. Þetta þurfum við að gera bæði vegna þeirra alþjóðlegu sáttmála sem við höfum fullgilt og undirgengist og ekki síður vegna þeirra tilmæla sem beint er til okkar frá fjölþjóðlegum samstarfsvettvangi sem við tökum virkan þátt í og metum mikils, nefnilega Norðurlandaráði, en síðast en ekki síst, hæstv. forseti, vegna þess að við erum þjóð sem vill bera höfuðið hátt, vill hafa hér ákveðin siðferðileg norm í hávegum og þá skiptir það okkur máli að þau séu höfð í hávegum jafnt hér innan lands sem á erlendri grund.

Hæstv. forseti. Ég hef mælt fyrir þessari tillögu og hvet til þess að ríkisstjórnin taki hana til skoðunar og að sú nefnd sem fengi þetta til meðferðar, sem að öllum líkindum verður allsherjarnefnd, líti þetta jákvæðum augum þannig að hún afgreiði tillöguna frá sér svo Alþingi geti beint þessum eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar okkar.