135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

siðareglur opinberra starfsmanna.

317. mál
[18:05]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður efast um réttmæti þess að setja reglur af þessu tagi. Ég tel litla þörf á því að efast um réttmæti þessa þegar stór samstarfsvettvangur eins og Norðurlandaráð hvetur til þess að það sé gert þegar jafnframt er sagt í tilmælunum að eftirspurnin eftir kynlífsþjónustu skapi vandamálið, þ.e. ef það væri engin eftirspurn væri heldur engin sala á kvenlíkömum eða barnslíkömum til kynlífsþjónustu. Bara sú staðreynd að eftirspurnin er til staðar og jafngríðarleg og raun ber vitni — hún veldur því að konur og börn eru flutt milli landa hundruðum þúsunda saman, jafnvel milljónum saman á hverju einasta ári í þessum tilgangi. Þessar staðreyndir tala sínu máli og í mínum huga eru þær réttlætingin fyrir því að setja reglur af þessu tagi.

Auðvitað er gott og gilt að treysta fólki og treysta náunganum. En við vitum það öll að það hefur ekki nægt til að útrýma glæpum í veröldinni að treysta því að allir séu heiðarlegir. Á sama hátt getum við heldur ekki látið okkur nægja, meðan við horfum á þetta gríðarlega alheimsvandamál, nútímaþrælasölu, að treysta því að þeir sem okkur standa næst, þeir sem hér eru, Norðurlandabúar til dæmis, láti sér ekki detta í hug að kaupa konur eða börn til kynlífsþjónustu. Fólk gerir það hér heima hjá okkur og fólk gerir það í útlöndum. Meðan ástandið er eins og það er held ég að það sé mjög einfalt og sjálfsagt mál að fara að tilmælum Norðurlandaráðs og leiða reglur af þessu tagi í lög.