135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

ræður og ávörp ráðamanna liggi fyrir á íslensku.

340. mál
[18:15]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu þingsályktunartillaga um að ávörp ráðamanna og ræður liggi fyrir á íslensku. Ég vil taka undir þessa tillögu með hv. þm. Merði Árnasyni og finnst raunar þeir tilburðir hv. þingmanna til að auka og styrkja íslenskuna verulega til bóta. Ég tek jafnframt undir með hv. þingmanni að það er gaman að því þegar við þingmenn getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til þess að styrkja stöðu íslenskunnar.

Svo háttar til um þessa tillögu að þar er verið að ræða ræður sem ráðamenn hafa haldið og það er áhugavert að lesa fylgiskjalið sem fylgir tillögunni. Ég er búin að renna yfir það og oft og tíðum er það svo að ég mundi halda að um töluvert merkar ræður sé að ræða og jafnvel efnismiklar.

Hér er farið dálítið yfir ræður forseta Íslands þar sem hann er t.d. að fjalla um mál sem eru mjög ofarlega á baugi á Íslandi, t.d. orkumál, loftslagsmál og fleira. Hér eru efni er varða Atlantshafsbandalagið sem hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra fjalla um, þannig að hér er oft og tíðum um mjög merk mál að ræða. Það er gott fyrir almenning að geta kynnt sér þau og ekki síður það sem nefnt var hér áðan, að oft er um að ræða ræður sem haldnar eru á Íslandi, örfáir gestir koma erlendis frá sem veldur því að stundum þarf að halda ræðuna á erlendri tungu.

Nú er það svo að við teljum oft að við Íslendingar séum svo ansi sleip í erlendum tungumálum og sérstaklega hefur mönnum þótt sem enskan sé að ryðja sér töluvert til rúms. Mér finnst það mjög miður ef við látum það gerast, að við teljum okkur það góð í erlendum tungumálum að við verðum að láta íslenskuna víkja þegar kemur að efni sem þessu. Mér finnst góður bragur á því að menn reyni sem frekast er unnt að þýða skjótt og vel ræður af þessu tagi, alveg hreint eins og hefur verið hér og er um þau álit sem koma frá erlendum og alþjóðlegum stofnunum sem varða okkar mikilvægustu mál.

Fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að Íslensk málnefnd vinnur mikilvægt starf og ég hef aðeins fylgst með því. Ég veit að margir þingmenn hafa fylgst með þeirri vinnu sem nú er að fara í gang og ég bind miklar vonir við hún að muni skila töluverðu um framgang og umræðu um íslenska tungu. Það er brýnt að við höldum umræðunni um íslenskuna lifandi vegna mikilvægi tungunnar sem menningararfs okkar og ekki síst vegna þess að hún er tæki sem við notum alla daga. Fjölbreytileiki hennar skiptir svo miklu máli fyrir okkur í samskiptum okkar, ekki síst hér í sölum Alþingis.

Ég tek því undir með hv. þm. Merði Árnasyni og þakka honum fyrir að koma fram með þetta mál. Eins og jafnan þegar íslenskuna ber á góma, stend ég heils hugar að baki henni.