135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:34]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson nefndi tvö mál, annars vegar álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og hvaða vinna væri í gangi í sambandi við það. Það hefur komið fram í þinginu að það mál er til athugunar í sjávarútvegsráðuneytinu og ég held að sú vinna gangi ágætlega. En eins og fram hefur komið mjög víða hjá þeim lögfræðingum sem hafa fjallað um það mál þá er auðvitað mjög mikilvægt að skoða það frá öllum hliðum og fara ofan í þau lögfræðilegu álitaefni sem þar koma fram en eins og allir vita sem skoðað hafa það álit þá eru litlar vísbendingar um hvað mannréttindanefndin ætlast til að við á Alþingi gerum til að breyta löggjöfinni eða öðrum atriðum sem þar eru nefnd. Má þá helst skoða hvaða álit þeir sem ekki studdu álitið, minni hluti nefndarinnar, settu fram í sérálitum, þannig mátti helst finna út hvað meiri hlutinn vildi. En þetta er sem sagt mjög flókið álitaefni.

Varðandi áhyggjur hv. þingmanns af frumvarpi iðnaðarráðherra þá get ég sagt honum að það er verið að skoða það mjög vandlega í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og þingmenn hafa eðlilega mikinn áhuga á að kynna sér það mál áður en það kemur inn í þingið og ætla að fara vel yfir það. Þeir eru langt komnir og munu væntanlega í þessari eða næstu viku skila því þannig að hv. þm. Guðni Ágústsson getur farið að skoða það mál eins og hann hefur greinilega mjög mikinn áhuga á.