135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:37]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er fullgilt að spyrjast fyrir um það hvað hæstv. ríkisstjórn ætlist fyrir í framhaldi af áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í kvótamálinu og auðvitað nærtækt að spyrja hvort til standi að hafa eitthvert þverpólitískt samráð um það hvernig brugðist verður við af Íslands hálfu.

Það lofar reyndar ekki góðu þegar formaður þingflokks sjálfstæðismanna grípur til þess gamalkunna ráðs að vitna aðallega í minni hlutann. Það minnir á þá daga þegar fyrri ríkisstjórn var kaghýdd af Hæstarétti, t.d. í öryrkjadómsmálinu og þá skutu menn sér gjarnan á bak við að það væri minnihlutaálit í dómnum eins og hann væri þá ekki jafngildur fyrir vikið.

Ég vil líka taka undir að það er dálítið sérkennilegt að þetta frumvarp um orkumálin sem við höfum frétt af og er strand í þingflokki sjálfstæðismanna er engu að síður komið út í bæ og þaðan berast álit og umsagnir eða ályktanir aðila um málið sem þingmenn hafa ekki séð. Það er ekkert við það að athuga þó að stjórnarfrumvörp séu til meðhöndlunar í stjórnarflokkum eða þingflokkum enda séu þau þá ekki annars staðar til umfjöllunar fyrr en þingheimur allur hefur fengið aðgang að þeim en það virðist ekki eiga við í þessu tilviki. Ég veit ekki betur en stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið að láta í ljós álit sitt á þessu frumvarpi sem enn er ekki komið fram og er nokkuð sérkennilegt.

Annars er ég ekki í þeim hópi sem telur það sérstakt harmsefni þó að misgóð stjórnarfrumvörp komi hér seint og lítið inn á þing. Ég er algerlega andstæðrar skoðunar á við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sem kvartaði undan því að ríkisstjórnin væri verklítil og kæmi litlu frá sér, mér liggur við að segja því minna því betra. Hitt er svo annað að það er auðvitað ekki góður svipur á því ef frumvörp eiga að koma í röðum inn á þing í aprílmánuði rétt áður en frestur til að leggja þau fram rennur út, sérstaklega ekki ef menn láta sér detta í hug að þau hljóti afgreiðslu á þessu vori. (Forseti hringir.) Allt tengist þetta líka spurningunni um stjórnarskrána og það hvort þar verður hafin vinna á nýjan leik eða tekin ákvæði þessu tengd inn í hana. Af því fréttist ekkert eins og kunnugt er.