135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:39]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að hér séu tekin upp þau tvö mál sem hv. þm. Guðni Ágústsson nefndi. Þau endurspegla bæði ágreining milli stjórnarflokkanna um veigamikil málefni og það er eðlilegt að spurt sé um hvað líði úrvinnslu mála á stjórnarheimilinu, hver sé líkleg niðurstaða og hvenær hún muni fást. Þetta bætist ofan í önnur ágreiningsefni sem eru á milli stjórnarflokkanna og hafa verið mjög áberandi í umræðunni á undanförnum vikum. Ég vil nefna ráðningu héraðsdómara nýverið en þar eru augljóslega mjög ólík sjónarmið eftir því hvort litið er til viðhorfa Samfylkingarinnar eða Sjálfstæðisflokksins. Einnig ásakanir frá ráðherrum Samfylkingarinnar um að það að taka ekki upp evru þýði að kostnaður upp á 72 milljarða leggist á íslenskan almenning og Sjálfstæðisflokkurinn standi þar í vegi fyrir því að létta þessu máli af íslenskum almenningi og mér finnst slíkar ásakanir vera nýmæli í stjórnarsamstarfi hér á landi því þær eru auðvitað mjög alvarlegar og formaður annars stjórnarflokksins hefur sagt að krónan sé viðskiptahindrun.

Hér var í síðustu viku umræða um Evrópumál sem snerist fyrst og fremst um Evrópustefnu Samfylkingarinnar en ekki Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Verkalýðsarmur Samfylkingarinnar vill í kjarasamningum koma á fót skattalækkun fyrir láglaunafólk sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur blásið út af borðinu svo nokkur mál séu nefnd og ég hlýt því að spyrja, virðulegi forseti, og vekja athygli á þessum ágreiningsefnum:

Mun ríkisstjórnin nokkuð ráða við það að komast frá öllum þessum ágreiningsefnum sem milli flokkanna eru?