135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:48]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir þær spurningar sem hv. þm. Guðni Ágústsson varpaði hér fram til Arnbjargar Sveinsdóttur, hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, um hvað líði nýju frumvarpi um raforkumál þar sem m.a. er tekið á eignarhaldi á auðlindinni sem hér hefur verið boðað hátt og í hljóði alveg frá því í byrjun þings. (Gripið fram í: Og þú ert á móti.)

Þegar á einum fyrsta fundi hv. iðnaðarnefndar í þinginu hér í haust kom hæstv. iðnaðarráðherra til að segja okkur m.a. hvað hann hefði á prjónunum. Þar á meðal var þetta frumvarp sem hann lýsti þá með allt öðrum hætti en ég les núna um í blöðum að sé tilvonandi. Síðan hefur ekki linnt látum. Fjallað hefur verið um frumvarpið í fjölmiðlum, á fundum og ég tala nú ekki um bloggið hjá hæstv. ráðherra og fleirum. Komið hafa yfirlýsingar og jafnvel álitsgerðir á frumvarpinu en það sér ekki dagsins ljós hér inni í þingsölum. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur óskað formlega eftir kynningu á frumvarpinu inni í þingflokknum. Það er ekki einu sinni hægt að dagsetja þá kynningu vegna þess að frumvarpið situr fast í Sjálfstæðisflokknum.

Mjög upplýsandi umfjöllun var um þessi mál í Morgunblaðinu nú um síðustu helgi og þar opinberaðist auðvitað sá ágreiningur sem er á milli stjórnarflokkanna hvað varðar auðlindir og eignarhald á auðlindinni þar sem hæstv. forsætisráðherra nefndi ekki einu orði eignarhaldið sem slíkt heldur talaði einungis um nýtingarrétt og afnot. Í þeim orðum endurspeglast sá ágreiningur sem er uppi innan stjórnarflokkanna.

Ég vil skora á hæstv. iðnaðarráðherra að fara nú (Forseti hringir.) að hrista þetta slyðruorð af sér og kynna frumvarpið eins og það liggur fyrir þannig að það sé ekki lengur (Forseti hringir.) leyndarmál.