135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:50]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég held nú að félagar mínir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa tekið til máls hafi skýrt ágætlega hvernig vinnu verður hagað í stjórnarskrárnefndinni á þessu kjörtímabili og sömuleiðis hvar þetta orku- og auðlindamál hæstv. iðnaðarráðherra er statt í þingflokknum.

Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er ekkert óeðlilegt að mikilvæg mál sem varða mikilvæga hagsmuni fyrir þjóðina komi til gagngerrar skoðunar inni í þingflokkunum. Hins vegar hefur hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ekkert um það að segja með hvaða hætti mál verður afgreitt úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins og mun ekkert geta stjórnað vinnubrögðum stjórnarflokkanna hvað það varðar. (Gripið fram í.) Það mál kemur bara fram þegar þingflokkurinn hefur afgreitt málið og hv. þingmaður verður að bíða fram að því. (Gripið fram í.)

Varðandi ummæli hv. þm. Guðna Ágústssonar um sameign þjóðarinnar á fiskimiðum í tengslum við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, er það rétt sem hv. þingmaður sagði að sjávarútvegurinn þolir ekki óvissu. Hann þarf á stöðugleika að halda, ég tala nú ekki um þegar þessi atvinnugrein hefur orðið fyrir svona miklum áföllum eins og hún varð fyrir í tengslum við skerðingu á þorskkvótanum.

Þess vegna er óþolandi að bæði hér innan þings og úti í þjóðfélaginu séu menn sem alltaf eru tilbúnir að spretta fram og grafa undan þessari atvinnugrein þegar eitthvað bjátar á. Það hafa ýmsir hér gert. Menn ættu frekar að reyna að snúa saman bökum og standa með sjávarútveginum sem atvinnugrein, einni af mikilvægustu atvinnugreinum okkar Íslendinga, frekar en að spretta endalaust upp úr jörðinni og reyna að grafa undan atvinnugreininni.

Varðandi álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna þá er það auðvitað til skoðunar í sjávarútvegsráðuneytinu en ég vil benda á (Forseti hringir.) að það álit er ekki bindandi. Það er álit og eftir því sem ég best veit, (Forseti hringir.) og ég hygg að formaður Framsóknarflokksins viti það líka, þá höfum við Íslendingar ekki framselt löggjafarvaldið eða dómsvaldið okkar til Sameinuðu þjóðanna og munum (Forseti hringir.) taka á því málefni á okkar forsendum en ekki annarra.