135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:53]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka þingflokksformanni Frjálslynda flokksins að halda til haga ýmsum málefnaáherslum Samfylkingarinnar en um leið að minna þingheim á að þótt þeir stjórnmálaflokkar starfi saman í ríkisstjórn, verða þeir ekki eitt og hið sama eða láta af skoðunum sínum í ýmsum veigamiklum málum. Þeir sameinast um þau verk sem þeir eru sammála um og það samstarf gengur vel eins og menn þekkja.

Það er auðvitað af einskærum velvilja og umhyggju fyrir ríkisstjórninni að hv. þm. Guðni Ágústsson gengur hér eftir frumvörpum ráðherra Samfylkingarinnar og reynir að lemja þau út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég held að það sé óþarft því að þegar hefur komið fram í opinberum yfirlýsingum formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins að von er á frumvarpinu nú á allra næstu dögum. Það er mikilvægt og gott vegna þess að hv. formaður Framsóknarflokksins ætti að muna að það var Framsóknarflokkurinn sem skildi þennan málaflokk eftir í rúst eftir að hafa stýrt honum í 12 ár. Á aðeins 100 dögum hefur hæstv. iðnaðarráðherra þegar tekið á stöðu orkuauðlindanna, flutt um það frumvarp, fengið það inn í ríkisstjórn og nú til umfjöllunar í stjórnarflokkunum.

En það var Framsóknarflokkurinn sem einkavæddi auðlindir í jörðu. Það var Framsóknarflokkurinn sem kom á því erfiða skipulagi sem nú er þar sem einkaeignarréttur er orðinn til í orkuauðlindum landsins. Það var Framsóknarflokkurinn sem hafði þetta skipulagsleysi í virkjana- og stóriðjumálum í landinu sem við höfum enn ekki bitið úr nálinni með.

Og ég man ekki betur, hv. þm. Guðni Ágústsson, (Gripið fram í.) en að það væri Framsóknarflokkurinn sem ætti nokkurn hluta af því kvótakerfi sem þingmaðurinn bendir réttilega á að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert alvarlegar athugasemdir við. Því er kannski rétt að árétta að hv. þm. Guðni Ágústsson geri grein fyrir afstöðu Framsóknarflokksins í þessu mikilsverða málefni, sameign á (Forseti hringir.) auðlindum íslensku þjóðarinnar. Afstaða Samfylkingarinnar er skýr. (Gripið fram í.)