135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:55]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég var að velta fyrir mér hvar þingmenn Samfylkingarinnar væru í þessu mikilvæga máli. Hv. þm. Helgi Hjörvar gerði mér þann greiða að koma hér upp og lýsa skoðunum Samfylkingarinnar. Reyndar voru þetta ekki skoðanir Samfylkingarinnar vegna þess að þetta var einfaldlega einhver ómálefnalegasta ræða sem ég hef heyrt lengi.

Ég held að þegar framsóknarmenn fóru með iðnaðarráðuneytið í tíð fyrri ríkisstjórnar hafi það einfaldlega verið dínamískasta ráðuneytið og gert það að verkum [Hlátur í þingsal.] að Ísland er efst á lista hvað varðar lífskjör í heiminum. (Gripið fram í: Já.) Þetta er einfaldlega staðreynd.

Ég er ósammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að sofandaháttur og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar séu lofsverð. Ég er sammála því að það komu fram misgáfuleg stjórnarfrumvörp en staðan er einfaldlega þannig víðs vegar á landinu — og í efnahagsmálum — að nú þarf ríkisstjórnin að koma með aðgerðir í staðinn fyrir að sitja hjá og gera ekki neitt.

Mér finnst það afar ósannfærandi hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur þegar hún lýsti því hér yfir að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sé óskýrt og ekki til þess fallið að hægt sé að fara eftir því á einn eða annan hátt. Ég vil benda hv. þingmanni á að eina röksemd sjálfstæðismanna fyrir því að taka upp kristið siðgæði í skólastarfi er dómur mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í Noregi. (Gripið fram í.) Það vill bara svo skemmtilega til að sá dómur fjallar ekki um það atriði. Þetta eru nú frekar léleg rök að mínu mati.

Stefna framsóknarmanna er afar skýr. Við viljum taka upp stjórnarskrárákvæði sem tryggir þjóðareign á orkuauðlindum (Gripið fram í.) og það er að mínu mati algjört grundvallaratriði (Forseti hringir.) að hér fari fram málefnaleg umræða sem allra, allra fyrst. Því hvet ég hv. þingmenn eða (Forseti hringir.) þingflokk Sjálfstæðisflokksins að afgreiða þetta mál hið snarasta.