135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:58]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það sem stendur upp úr eftir þessa umræðu er það sem ég vissi fyrir, Sjálfstæðisflokkurinn ræður ekki við stjórnarskrármálið. Það er eitt þar í veginum, hann hefur haft og hefur enn horn í síðu embættis forseta Íslands og setur það jafnan á dagskrá þegar dregur að kosningum (Gripið fram í.) og vill skerða verkefni forsetans (Gripið fram í.) og færa þau á annað stig en þau eru. Þetta liggur fyrir í þessari umræðu. Sjálfstæðisflokkurinn nær ekki samstöðu við Samfylkinguna eða aðra stjórnmálaflokka um þetta verkefni.

Síðan vil ég segja hvað varðar hitt stóra málið að ég er mjög undrandi. Ég er mjög undrandi á að hlusta á hv. formann þingflokks sjálfstæðismanna koma hér fram og halda sig bara við minnihlutaálitið. Það varð niðurstaða í mannréttindanefndinni sem er mjög alvarleg. Hún fjallar um mannréttindi á Íslandi og íslenska ríkisstjórnin og Alþingi Íslendinga verða í vondum málum ef þetta mál verður ekki tekið föstum tökum.

Ég álít að það hefði þurft að taka það föstum tökum og allir flokkar fengju að koma að málinu. Þetta er mál sem fara verður hér yfir út frá mannréttindum og íslenska þingið og þjóðin þola ekki skaða af því úti í heimi gagnvart okkur. Þess vegna er það mjög brýnt mál og til skammar í þessari umræðu að tala um minnihlutaálitið og það er það sem við greinum í þessari umræðu, að stjórnarflokkarnir ætla ekkert að gera í þessu máli. Það verður sjávarútvegurinn sem líður mest fyrir málið. (Gripið fram í.)

Ég er í engum vafa um það sem formaður Framsóknarflokksins að við verðum að taka á í þessu máli. Sjálfsagt verður að breyta lögum og opna kerfið að einhverju leyti út frá mannréttindum hér heima og um víða veröld. (Forseti hringir.) Nefndarálitið fjallar um það. Þess vegna er þetta ekkert grín og sjálfstæðismenn sem (Forseti hringir.) eru valdaflokkur Íslands — þeir geta ekki komið eins og þeir eigi öll mál fyrir sig og enga aðra varði um þau. (Forseti hringir.)