135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[14:00]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta var afar undarleg ræða hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni. Það hefur margoft komið fram að verið er að taka mjög föstum tökum það álit sem liggur hér fyrir frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. (Gripið fram í.) Ég sagði mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, en af því að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur verið að blanda Mannréttindadómstólnum saman við mannréttindanefndina þá er það annar hlutur. Hann er reyndar eini lögmaðurinn sem ég hef heyrt tala um að þetta væri mjög auðvelt viðureignar. Við höfum hlustað á álit mjög margra virtra fræðimanna í lögfræðingastétt (Gripið fram í.) sem hafa farið yfir þetta og sagt að það þurfi að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Allir eru sammála um að þarna sé ekkert eitt lögfræðiálit hið eina rétta og mun væntanlega ekki koma fram, en úr þessu verðum við auðvitað að vinna. (Gripið fram í: Eigum við þá ekki …?)

Hæstv. forseti. Ég vildi síðan segja að ég tek undir það með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að það er alveg ótrúlegt hvað menn eru alltaf tilbúnir til að reyna að grafa undan sjávarútveginum. Það er alveg ótrúlegt að hér í þingsalnum (Gripið fram í.) skuli menn alltaf vera tilbúnir að hlaupa upp (Gripið fram í.) til að grafa undan þessari einu atvinnugrein.

Síðan vil ég segja varðandi frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra sem nú er til umfjöllunar hjá stjórnarflokkunum að auðvitað er það svo að stjórnarflokkarnir vilja fá að skoða það frumvarp mjög vel áður en við leggjum það fram. (Gripið fram í.) Ég tek undir með þeim sem hafa sagt það hér að það er auðvitað ekki til fyrirmyndar að mál séu til umfjöllunar úti í bæ. (Forseti hringir.) Ég vil þá beina því líka til Framsóknarflokksins: Er ekki rétt að sá flokkur fari að skoða innan dyra (Gripið fram í.) skoðanir sínar og koma fram með eina stefnu? (Forseti hringir.) Er það undarlegt að tveir stjórnarflokkar þurfi smátíma (Gripið fram í.) til þess að ræða sín mál (Forseti hringir.) en [Hlátrasköll í þingsal.] Framsóknarflokkurinn nær ekki samstöðu, formaður og varaformaður Framsóknarflokksins geta ekki náð samstöðu (Forseti hringir.) um einföld mál sem snúa að stefnu flokksins.