135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

Ég hef ákveðið að leggja fram þetta frumvarp sem er þess efnis að útgáfa starfsleyfa til heilbrigðisstétta, ásamt ýmiss konar vottorðaútgáfu sem þeim fylgir, verði flutt frá heilbrigðisráðuneyti til landlæknis.

Frumvarp þetta tengist aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um „Einfaldara Ísland“ og er liður í tveggja ára áætlun heilbrigðisráðuneytisins um aðgerðir til einföldunar opinberra reglna og stjórnsýslu.

Helstu rökin fyrir flutningi starfsleyfa heilbrigðisstétta til landlæknis eru þau að um er að ræða stjórnsýslu sem telja verður að eigi frekar heima á verksviði stofnunar en ráðuneytis. Þess má geta að annars staðar á Norðurlöndum sjá hinar ýmsu undirstofnanir norrænna ráðuneyta um útgáfu starfsleyfa og vottorða sem tengjast þeim. Undirbúningsvinna vegna laga- og reglugerðarbreytinga að því er varðar starfsleyfi heilbrigðisstétta er hjá ráðuneytum.

Í annan stað tel ég að frumvarpið sé ákjósanlegt út frá sjónarmiðum um réttaröryggi. Ef það verður að lögum getur umsækjandi um starfsleyfi borið ákvörðun landlæknis undir ráðuneytið og þannig fengið fjallað um mál sitt á tveimur stjórnsýslustigum.

Loks er hér um að ræða einföldun á málsmeðferð og styttingu málsmeðferðartíma þar sem ráðuneytið hefur sent flestar umsóknir um starfsleyfi til umsagnar hjá landlækni.

Með þessu frumvarpi er þó aðeins tekið fyrsta skrefið í átt til einföldunar á þessu sviði. Í heilbrigðisráðuneytinu hefur verið unnið að samningu lagafrumvarps um heilbrigðisstéttir með það að markmiði að þær muni allar heyra undir ein lög. Nú er í gildi fjöldi laga og reglugerða um heilbrigðisstéttir sem nánast öll byggjast á læknalögum og vísa í þau. Einn lagabálkur um heilbrigðisstéttir, eins og stefnt er að, mun því leiða til enn frekari einföldunar.

Helstu atriði frumvarpsins eru þessi:

1. Hvarvetna þar sem þess er getið í lögum um heilbrigðisstéttir að heilbrigðisráðherra gefi út starfsleyfi er lagt til að útgáfa leyfanna flytjist til landlæknis.

2. Í samræmi við lög nr. 109/2007 um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/ 1969, er heiti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis breytt í heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneyti þar sem það á við.

3. Nokkur úrelt ákvæði laga um heilbrigðisstéttir eru lagfærð og leiðrétt.

Hæstv. forseti. Í ræðu minni hef ég farið í stórum dráttum yfir ástæður þess að ég legg fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa til landlæknis. Megintilgangur breytinganna er að um er að ræða stjórnsýslu sem telja verður að eigi frekar heima á verksviði stofnunar en ráðuneytis og sjónarmið um réttaröryggi. Umsækjandi um starfsleyfi getur borið ákvörðun landlæknis undir ráðuneytið og þannig fengið fjallað um mál sitt á tveimur stjórnsýslustigum. Málsmeðferð verður einfaldari og styttri en ráðuneytið hefur sent flestar umsagnir um starfsleyfi til umsagnar hjá landlækni.

Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.