135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:09]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta felur í sér annars vegar nauðsynlegar orðalagsbreytingar vegna færslu verkefna á milli ráðuneyta og hins vegar að færa útgáfu starfsleyfa ýmissa heilbrigðisstétta frá ráðherra til landlæknis.

Mig langar að gera að umtalsefni orðið „starfsleyfi“ því að baki sérhverju starfsleyfi eða starfsheiti liggja kröfur um sérhæfða menntun á hinum ólíkustu sviðum og menntun þeirra heilbrigðisstétta sem frumvarpið nær til gerir kröfu um sérhæfða háskólamenntun. Þess vegna ættu engin starfsleyfi eða starfsheiti, óháð því hver veitir starfsleyfið, að vera gefin út án þess að þeirra menntunarkrafna sem að baki liggja sé að fullu fylgt. Spítalar og ýmsar stofnanir loka deildum þegar þeir hafa ekki mannskap vegna þess að starfsfólk þeirra er sérfræðingar. Engin dæmi eru um að einhverjir liðléttingar og lausalið geti komið í þeirra stað. Aðrar stofnanir, svo sem skólar, geta ekki lokað eða fellt niður kennslu ef ekki fást sérfræðingar því að í þeirra störf geta flestir gengið.

Sérfræðimenntun á að virða og fagleg málefni eiga að vera á höndum sérfræðinganna og engra annarra. Ef kröfur um sérmenntun að baki starfsleyfi eða starfsheiti eru skýrar og frá þeim verður ekki hvikað skiptir í raun engu máli hver gefur starfsleyfið út. Hins vegar má ætla að með frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra sé verið að einfalda stjórnsýsluna, það er líka verið að auðvelda kæruferli ágreiningsmála því að ef landlæknir synjar útgáfu starfsleyfis eða starfsheitis er möguleiki að kæra þá synjun til ráðherra og því ber að fagna.

Hæstv. forseti. Ég styð fram komið frumvarp og það að færa starfsleyfi frá ráðherra til landlæknis. Það væri hins vegar óskandi að samræming væri í útgáfu starfsleyfa og starfsheita og enginn, og ég ítreka enginn fengi leyfi nema að uppfylltum kröfum. Ég vildi óska að svo væri en því er ekki að heilsa.