135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:12]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp um breytingu á allmörgum lögum, 16 ef rétt er talið, um heilbrigðisstéttir og önnur lög sem varða heilbrigðisþjónustu og eftirlit með heilbrigðisstarfsfólki. Þetta felur í sér fyrst og fremst flutning á útgáfu á starfsleyfum frá ráðherra til landlæknis.

Mér telst til að í landinu séu starfandi um 30 heilbrigðisstéttir sem annaðhvort eru löggiltar eða viðurkenndar og ýmist er kveðið á í lögum eða í reglugerðum. Þær starfsstéttir eða fagstéttir hafa sótt um leyfi til að starfa innan síns fags eða starfsgreinar til heilbrigðisráðherra fram til þessa. Ég vil segja að frumvarpið er að mínu mati vel ígrundað og byggir á þeirri hugmyndafræði sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur beitt sér fyrir í starfi sínu sem heilbrigðisráðherra, þ.e. að breyta starfsemi heilbrigðisráðuneytisins í þá veru að þar fari fyrst og fremst fram stefnumótun í málaflokkum ráðuneytisins en framkvæmd verkefna verði á ábyrgð viðkomandi stofnana. Með það í huga er rökrétt að stjórnsýsluverkefni eins og umsýsla og umsjón með starfsleyfum heilbrigðisstétta verði færð til stjórnsýslustofnana, landlæknis í þessu tilviki. Þetta er leið til að einfalda stjórnsýsluna, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra. Í mörgum tilvikum, t.d. varðandi áminningu, sviptingu og endurútgáfu á starfsleyfi, hafa erindi verið send á milli landlæknis og ráðherra þar sem landlæknir hefur verið ráðgefandi fyrir ráðherra í þessum efnum en endanlegt vald er í höndum ráðherra.

Með þessari breytingu verða þessir þættir í eftirliti með starfi heilbrigðisstétta á einni hendi og það gerir réttarstöðu viðkomandi einstaklinga betri, vilji þeir bera ákvörðun landlæknis, t.d. varðandi áminningu eða sviptingu eða veitingu starfsleyfa, undir ráðherra. Þá fær málið eðlilegri umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum þegar verkaskipti eru með þessum hætti sem er mun skýrari. Þetta er rökrétt breyting frá nýsamþykktu frumvarpi um landlækni sem tók gildi 1. september sl. þar sem kveðið er á um víðtækt eftirlitshlutverk landlæknis með heilbrigðisstarfsmönnum m.a. varðandi hæfni heilbrigðisstarfsmanns til starfa og hvernig er tekið á málum þegar heilbrigðisstarfsmaður hefur brotið af sér í starfi. Það er eðlilegt að þetta sé á einni hendi enda hefur ákvörðun ráðherra byggt á mati og ráðgjöf landlæknis og athugun hans á máli viðkomandi starfsmanns, eins og ég benti á hér á undan.

Til viðbótar flutningi á umsjón með veitingu starfsleyfa til landlæknis er einnig í frumvarpinu ákveðin tiltekt á lögum um heilbrigðisstéttir sem löngu er tímabær. Breytingarnar eru reyndar smávægilegar og hafa í sjálfu sér ekki skipt máli í gegnum tíðina en samt sem áður er það ákveðin tiltekt sem er mikilvægt að halda til haga, t.d. varðandi nafn á fag- og stéttarfélagi hjúkrunarfræðinga. Í núgildandi hjúkrunarlögum er vísað til Hjúkrunarfélags Íslands en 15. janúar sl. voru 14 ár síðan það félag var sameinað félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga og úr varð Félag ísl. hjúkrunarfræðinga, þannig að það er ágætt að því er haldið til haga í hjúkrunarlögum.

Sama má segja um tilvísun í nám iðjuþjálfa sem nú er eingöngu kennt við Háskólann á Akureyri og það er líka til bóta að ákvæði um sérfræðingsleyfi til handa sjúkraþjálfurum eru með þessu frumvarpi færð inn í lög en hafa áður byggt á reglugerð.

Það vakti sérstaka athygli mína í greinargerð með frumvarpinu og athugasemdum að fyrirhugað er að leggja fram frumvarp um starfsréttindi heilbrigðisstétta þar sem lög um einstakar heilbrigðisstéttir verða felld undir eina löggjöf. Slík breyting hefur verið til umræðu um nokkuð langt skeið og margar stéttir hafa lýst stuðningi við slíka breytingu en andstaðan hefur helst verið hjá læknum og hjúkrunarfræðingum. Ég man reyndar eftir því að hafa komið að slíku máli fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Ætli það séu ekki svona 12 ár síðan ég kom að fyrstu drögum á slíku frumvarpi sem mætti töluverðri andstöðu, ekki síst hjá þessum tveimur stéttum sem ég nefndi hér áðan. Þessi leið hefur verið farin í Noregi og ég skoðaði á sínum tíma hvernig Norðmenn hafa farið að þessu og þessi leið hefur einnig verið farin í Svíþjóð. Ljóst er það er rétt leið að fella lög um starfsstéttir innan heilbrigðiskerfisins í ein lög. Hingað til hafa læknalög verið ákveðin grunnlög varðandi starf heilbrigðisstétta. Ákvæði þeirra laga hafa verið notuð sem ákveðinn grunnur í túlkun varðandi réttindi og skyldur annarra heilbrigðisstétta þannig að tímabært er og rétt ákvörðun að sameina þessi lög undir einn hatt og verður mjög áhugavert að taka þá umræðu. Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann muni leggja þetta frumvarp fram á vorþingi eða hvort hann ætli sér lengri tíma til að skoða það. Hvernig hefur samráð við heilbrigðisstéttir farið fram og hver hafa viðbrögð þeirra verið varðandi þessa hugmynd?

Að lokum langar mig aðeins að bregðast við því sem kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur varðandi starfsleyfi. Ég tek heils hugar undir hugleiðingar hv. þingmanns en vil jafnframt benda henni á varðandi það að taka réttindalausa kennara til starfa inn á kennslustofnunum, að innan heilbrigðiskerfisins er gert slíkt hið sama varðandi heilbrigðisstéttir. Ég er ekki að segja að það sé til fyrirmyndar en vegna manneklu á heilbrigðisstofnunum hafa t.d. sjúkraliðar, og það er heimild um það í lögum, verið ráðnir í stöðu hjúkrunarfræðinga þar sem ekki hefur reynst möguleiki á að ráða hjúkrunarfræðinga til starfa að undangengnum auglýsingum. Sama má segja um hjúkrunarfræðinema og læknanema sem ráðnir hafa verið til starfa inni á öldrunarstofnunum og heilbrigðisstofnunum til að sinna störfum hjúkrunarfræðinga. Sama má líka segja um læknanema sem sinna störfum lækna. Stærsti hópurinn eru náttúrlega ófaglærðir starfsmenn sem hafa verið ráðnir í svokallaðar sjúkraliðastöður. Það er því ekki einsdæmi að slíkt eigi sér stað innan kennslustofnana, heldur á þetta einnig við um heilbrigðisstofnanir. Að sjálfsögðu eigum við að stefna að því að fólk með réttindi sé í viðkomandi störfum en á sama máta eigum við jafnframt að gefa fólki, sem hefur áhuga á starfa á þessum vettvangi, tækifæri til að mennta sig til slíkra starfa. Við eigum að gera ófaglærða starfsmenn hæfari til að gegna umönnunarstörfum inni á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum og gefa þeim tækifæri til að afla sér aukinna réttinda og starfa sem sjúkraliðar. Svona er þetta og við erum ekki ein um það hér á landi að réttindafólk með starfsréttindi sinni þeim störfum sem auglýst eru.