135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:20]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál sem hér er til umfjöllunar frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er í sjálfu sér ánægjuefni að fá mál frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Það hefur ekki verið mikið um að hann hafi flutt mál fram að þessu og farið er að líða á vetur. Miðað við áform sem maður hefur heyrt og kom m.a. fram hjá hæstv. forsætisráðherra, áform um miklar breytingar í heilbrigðiskerfinu sem sjálfstæðismenn treysta sér í með Samfylkingunni en telja ekki að hefði verið mögulegt að ná fram með Framsóknarflokknum, þá eigum við náttúrlega von á stórum málum inn í þingið, það er ekki nokkur spurning. Þetta mál sem hér er flutt er mjög saklaust og kallar ekki á neinar grundvallarbreytingar og í raun er það sjálfsagt mál að mínu mati. Það er reyndar flutt í framhaldi af stefnumótun sem átti sér stað í tíð síðustu ríkisstjórnar í sambandi við einfaldara Ísland. Hér er sem sagt fyrst og fremst verið að færa verkefni frá ráðuneyti til undirstofnunar og ég tel að það sé af hinu góða. Í öðru lagi er verið að breyta heitum bæði á ráðherra og ráðuneyti í framhaldi af því sem ákveðið var fyrir jólin í sambandi við breytingar á Stjórnarráði Íslands og það er eitthvað sem hlaut að koma í framhaldinu. Við getum haft ýmsar skoðanir á því hvort það var skynsamleg breyting sem þarna var gerð en fyrst hún var gerð þarf náttúrlega að laga lögin að henni og það er meiningin að gera með þessu frumvarpi. Þar að auki mun það spara einhverja peninga fyrir ríkissjóð samkvæmt umsögn frá fjármálaráðuneytinu og það er hið besta mál.

Ég sé ekki ástæðu til annars en að vera jákvæð gagnvart þessu máli, alla vega hér við 1. umræðu. Að sjálfsögðu munum við fara yfir þetta mál betur í nefndinni þannig að þá kemur í ljós í smærri atriðum út á hvað það gengur og hvort þar leynist eitthvað sem maður áttar sig ekki á við fyrsta yfirlestur. Það væri kannski forvitnilegt að heyra, ef hæstv. ráðherra kemur upp aftur, hvort hann vilji ekki greina okkur frá því hvenær þessi stóru mál koma inn í þingið sem kalla á grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu.