135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:22]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur hæstv. ráðherra mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings á útgáfu starfsleyfa til landlæknis. Ég tek undir inntak frumvarpsins um að breyta stjórnsýslunni á þann veg að starfið sé með eðlilegri hætti, að starfsleyfisveitingin sé hjá landlæknisembættinu þannig að kæruferli eða annað fari þá til efsta stjórnsýslustigsins sem er ráðuneytið. Ef heilbrigðisstarfsmenn eru ósáttir við afgreiðslu sinna mála er eðlilegt að geta kært málin til ráðherra. Ég tel að á mörgum sviðum sé rétt að fara yfir stjórnsýsluna þannig að ráðherra sé ekki bæði leyfisveitandi og úrskurðarvald í sama málinu eða við sömu starfsmenn þannig að varðandi réttaröryggi sé ákveðið kæruferli sem, ef allt svo strandar, lendir þá hjá dómstólum. Við getum þá fækkað þeim málum sem afgreidd eru með eðlilegum hætti innan stjórnsýslunnar sjálfrar.

Ég vil nota þetta tækifæri og nefna hlutverk landlæknis í þessu samhengi. Það varðar stjórnsýslulega stöðu landlæknisembættisins því að í dag, og svo hefur lengi verið, er landlæknisembættið undir heilbrigðisráðherra. Það hefur bæði ráðgefandi hlutverk og eftirlitshlutverk og er í sumum tilfellum beggja vegna borðsins. Er ekki rétt að taka mjög alvarlega til skoðunar hvort við eigum ekki að styrkja stöðu landlæknisembættisins stjórnsýslulega gagnvart ráðuneytinu? Fram hafa komið hugmyndir þess efnis að landlæknisembættið falli beint undir Alþingi eins og umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun, þetta sé eitt af þeim hlutverkum sem er ráðgefandi fyrir stjórnvöld. Þau eru aftur ráðgefandi og leiðbeinandi inni í kerfinu og eftirlitsaðilinn líka. Ég vil nefna þetta hér og veit að við eigum eftir að athuga betur í þessu sambandi hvort ekki eigi að skoða sérstaklega stöðu landlæknisembættisins með tilliti til sjálfstæðis og þess eftirlitshlutverks sem embættið hefur.

Ég tek sérstaklega undir orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hvað varðar starfsleyfin. Til hvers er verið að veita ákveðnum starfsstéttum starfsleyfi? Af hverju getur ekki hver sem er kallað sig lækni, hjúkrunarfræðing, sjúkraliða eða eitthvað af þessum 30 stéttum sem heyra undir heilbrigðisstéttirnar? Það er vegna þess að þetta eru lögvarin heiti, á bak við þau og á bak við starfsleyfi liggur ákveðin, viðurkennd þekking sem verður að uppfylla til að fá starfsleyfi. Ef það er svo mikilvægt að hafa starfsleyfi til að geta kallað sig eitt af þessum 30 starfsheitum heilbrigðisstétta, hjúkrunarfræðingur, læknir, líftæknifræðingur, eða hvað það nú er, er þá ekki mikilvægt að við förum að skoða mjög alvarlega hvers vegna við þurfum að ráða í neyð aðrar starfsstéttir í viðurkennd störf eins og til hjúkrunar til að sinna sjúkum, eins í stað sjúkraliða og jafnvel líftæknifræðinga? Ég held að læknastéttin sé eina stéttin sem hefur þá viðurkenningu að ekki er hægt að fá inn í þá starfsgrein aðra en þá sem hafa full réttindi. Ég held að þarna sé meinsemd sem við þurfum að taka alvarlega í þeirri stöðu sem við erum í nú ef við ætlum að standa vörð um þessi starfsleyfi, að þau þýði eitthvað, þau séu eitthvað, að það sé til einhvers að mennta sig til að hljóta þessa viðurkenningu. Þá verðum við að horfa til þess að launin séu með þeim hætti að þeir sem mennta sig til þessara starfa og vilja vinna við það sem þeir hafa menntað sig til — að það sé eftirsóknarvert og að ekki þurfi að leita út fyrir stéttirnar til þess að fylla í skörðin. Í heilbrigðisþjónustunni er þetta alvarleg staða og sömuleiðis í menntakerfinu. Mig grunar að ef við skoðuðum fjárveitingar, bæði til heilbrigðisþjónustunnar og leikskólanna, grunnskólanna, að við áætlum fjármagn út frá því að þar sé stór hluti starfsfólks ófaglærður. Við gerum sem sagt ekki ráð fyrir að fullmanna allar stöður með fólki sem menntað er til starfa í leikskólum og heilbrigðisþjónustu.

Hæstv. forseti. Við munum fara vel yfir frumvarpið í hv. heilbrigðisnefnd en í fljótu bragði sýnist mér þetta allt vera í rétta átt og að þarna sé svolítil tiltekt í leiðinni hvað varðar einstakar stéttir. Liðin eru 15 ár síðan hjúkrunarfræðingar stofnuðu Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og það er ágætt að halda upp á afmælið með því að fá það rétt nefnt inn í lögin og eins hvað varðar iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara, að þeirra staða sé viðurkennd eins og hún er í dag, inni í þessum miklu tiltektum.