135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur munnleg fyrirspurn, sem ég mun svara á morgun, um það sem snýr að heilsugæslunni og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þingmaður spyr hvað hafi verið gert. Við höfum vitað af þeim verkefnum sem þarna liggja fyrir. Stétt heimilislækna, eða stærsti hluti hennar, er, ég ætla ekki að segja kominn á aldur, í eldri kantinum og ekki hefur orðið jafnmikil endurnýjun í þeirri stétt eins og menn hefðu viljað sjá. Eðli máls samkvæmt er það ekki nýtt mál, eins og hv. þingmaður þekkir. En við sjáum líka fram á það, eins og hv. þingmaður veit, að mikil eftirspurn er eftir þessari þjónustu og þannig á það að vera. Það skiptir máli hvernig menn haga þessum málum, hvernig við nýtum þá fjármuni sem við leggjum í þetta sem best.

Ráðuneytið hefur verið að skoða þessi mál, taka út hluti, hvernig þetta hefur verið fram til þessa, hvernig það hefur reynst. Það var tilkynnt fyrir nokkru að ég hyggist setja nefnd sem ég hef skipað undir forustu Guðjóns Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra WHO, til þess að taka út þá stöðu sem nú er og koma með tillögur til úrbóta og varðandi framtíðarskipan hvað þetta varðar.

Eins og ég nefndi áðan, virðulegi forseti, eru mönnunarmálin eitt af nútíðar- og framtíðarverkefnum okkar. Það hefur verið meira áberandi um ýmsar aðrar stéttir en svo sannarlega þurfum við líka að huga að læknum og þá kannski sérstaklega heimilislæknum, þess vegna hófum við þessa vinnu strax á sumarmánuðum.