135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

geislavarnir.

353. mál
[14:55]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir innlegg þeirra í umræðuna. Mér heyrist að menn séu frekar jákvæðir hvað þetta varðar og ég fagna hugmyndum hv. þm. Þuríðar Backman um að einkavæða Geislavarnir. Við erum ekki komin svo langt en ég er sannfærður um að þið farið vel yfir það í hv. heilbrigðisnefnd og ef þið sjáið einhvern flöt á því hlýtur maður að taka öllum slíkum málefnalegum ábendingum vel en við erum ekki að fara neitt þangað í þessu frumvarpi eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir. (Gripið fram í.)

Mér fannst hins vegar hv. þingmaður alveg koma inn á það sem kannski er mikilvægast í þessu, sem snýr að þeim aðilum sem nota þessa þjónustu og nýta hana, en það er sú áhersla á að geislun á Íslandi sé sem árangursríkust og að geislun á fólk, almenning, starfsmenn og sjúklinga, sé sem minnst, á það eigum við auðvitað að leggja áherslu. Þetta er kannski eitthvað sem almenningur og fagaðilar eru betur meðvitaðir um en þeir voru í árdaga þessarar þjónustu eða tækni og það er mjög mikilvægt að þetta sé uppleggið í þeim breytingum sem við förum í.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að rafræn sjúkraskrá er afskaplega mikilvæg bæði af þeim ástæðum sem hv. þingmaður nefndi og mjög mörgum öðrum. Í því skyni er nefnd að störfum undir forustu Daggar Pálsdóttur sem er að skoða lagaumhverfið hvað það varðar vegna þess að eins og við þekkjum þá mætti vera auðveldara og betra að nýta sér þetta umhverfi en nú er. En það eru ýmsir annmarkar á því og ég vonast til að tillögur starfshópsins verði til þess að þeir agnúar muni hverfa og við getum byggt upp af þeim ástæðum sem hv. þingmaður nefndi, m.a. rafræna sjúkraskrá sem verði með því besta sem gerist.

Hv. þingmaður spurði um kostnaðinn, af hverju hann aukist þrátt fyrir að hér sé um einföldun að ræða. Það er fyrst og fremst vegna þess sem kemur fram í a-lið 1. gr. frumvarpsins, en þar segir að bætast skuli við nýr töluliður, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Nauðsynleg mælifræði og varðveisla landsmæligrunna vegna notkunar jónandi geislunar á Íslandi.“

Eftir því sem ég best veit er þarna til komin ástæðan fyrir bæði stofnkostnaði og auknum rekstrarkostnaði en að sjálfsögðu geta þingmenn í hv. heilbrigðisnefnd fengið nánari upplýsingar um þetta þegar þeir fjalla um málið í nefndinni.