135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

réttindi og staða líffæragjafa.

49. mál
[15:12]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þingsályktunartillagan sem hér er lögð fram um úttekt á réttindum og stöðu lifandi líffæragjafa er að mínu mati tímabær. Líffæri til ígræðslu fást yfirleitt, eins og hér hefur komið fram, frá látnum einstaklingum og ef til vill eðli málsins samkvæmt. Ég tel að ræða þurfi opinskátt um líffæragjöf og hvetja til þess að veitt sé samþykki til líffæragjafar á meðan sérhver einstaklingur er til þess bær, því að það getur verið afar sársaukafullt og erfitt fyrir aðstandendur að heimila slíkt á sorgarstundu þrátt fyrir vissu um að líffæri hins látna geti gefið öðrum einstaklingi nýtt og innihaldsríkt líf.

Til eru þeir sem kjósa að gerast lifandi líffæragjafar og þeir eiga mína einlægu aðdáun og virðingu því að vart er hægt að sýna meiri ást og umhyggju gagnvart meðbræðrum sínum. Það ætti því að mínu mati að vera skýlaus krafa að innan hins opinbera tryggingakerfis sé komið að fullu til móts við þá einstaklinga sem sýna slíka fórnfýsi, hvort heldur er varðar launatap, tryggingar eða hvað annað sem þar skiptir máli.

Ég styð því fram komna þingsályktunartillögu heils hugar og vonast til að hv. heilbrigðisnefnd sýni henni áhuga og afgreiði hana hið snarasta úr nefnd.